Ég er nýlega farin að borða Sushi en það er ekki langt síðan ég hélt þrumandi fyrirlestur yfir hausinn á vinkonu minni að þeir sem segjast elska Sushi væru bara hreinlega að ljúga!
Svo kom ég með röksemdarfærslur hægri vinstri hvernig í ósköpunum fólki gæti þótt hrísgrjón með sýnishorni af hráum fiski gott, sojasósa og súrt engifer! Þetta væri bara sýndarmennska og ekkert annað!
Já *ehrm*…
Einhvernvegin æxlaðist það svo að ég var endalaust í aðstöðum þar sem var verið að bjóða upp á Sushi og ég smakkaði alltaf einn bita hér, einn bita þar. Lærði að setja græna dótið út í sojasósuna (lærði líka að það er ekki gott að borða græna dótið eitt og sér), komst að því að mér þætti nú bara grænmetis Sushi best sem leiddi af sér að mér fór að líka við rækju Sushi og svo humar Sushi og svo framvegis.
Einn daginn gerðist það svo…
Ég sagði setninguna sem ég hélt fram að væri bara lygi, hún bara vall út úr mér algjörlega óvænt og ég sagði með miklum tilfinningaþrunga í eitt skipti sem ég stakk sjúklega góðum Sushi bita upp í mig.
ÉG ELSKA SUSHI!
Þessu bjóst ég ekki við skal ég segja þér, ég varð meira smá skömmustuleg! En það er ekki aftur snúið, mér finnst Sushi gott og núna er ég komin með lúmskan áhuga á að fara á Sushi námskeið, læra að rúlla hrísgrjónunum upp, muna hvað græna stöffið heitir og fá almennilega að vita hvað þetta svarta er.
En kosturinn við að bæta við nýjum vinklum í lífið er að tækifæri opnast hvað varðar að gefa gjafir! Kallinn minn kom heim úr vinnunni núna í vikunni með óvæntan glaðning í poka. Hann var að fara út um kvöldið og vissi alveg að ég var ekki í stuði til að elda þannig að minn skoppaði bara út í Glæsibæ og keypti Sushi handa minni hjá Tokyo Sushi (mjög góður staður) og fór yfir í Sushi búðina í Glæsibæ og keypti gullfallega prjóna handa mér og skál undir sojasósuna.
Þvílík gleði sem hann færði mér! Hann var sem sagt búin að hlusta á mig segja “ohh hvað væri miklu skemmtilegra að borða Sushi með fallegum prjónum” og “ohh ég á ekkert undir sojasósuna” ohhh ég varð svo skotin í honum þegar hann kom með þetta heim!
Sem sagt! Ef ykkur vantar hugmynd af tækifærisgjöfum eða jólagjöfum þá er þetta algjörlega málið ef þið eigið vini, vinkonur, systur, bræður, maka, ástmenn og þau ELSKA SUSHI!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.