Nú er grilleldamennskan að komast á fljúgandi ferð hjá landsmönnum og er indælt að finna ljúfa grillangan í umverfinu. Það er vinsælt og alltaf þægilegt að grilla kjúkling, sérstaklega kjúlla sem þrædddur hefur verið upp á grillspjót.
Þannig er hann einkar girnilegur og hentugur við ýmis tækifæri og jafnt hægt að bera fram sem forrétt eða aðalrétt hvar og hvenær sem er Einnig er vinsælt að bjóða upp á kjúklingaspjót í fjölmennum veislum sem hluta af hlaðborði. Ef notaðir eru trépinnar er nauðsynlegt að láta þá liggja í bleyti í um hálftíma áður en þrætt er upp á þá, annars brenna þeir illa við eldamennskuna. Uppskriftina sem gefin er hér að kryddlegi er að finna í matreiðslubókinni minni Eldað af lífi og sál. Hún er miðuð fyrir um 600 g af kjúklingakjöti og gerir kjötið sérlega meyrt og gómsætt.
Best er að nota bringur sem sneiddar eru í hæfilega bita eða lundir. Kjúklingakjötið er síðan látið liggja í nokkra stund í kryddleginum, t.d. um 30 mínútur og grillað, steikt á pönnu eða bakað í ofni. Gott er að pensla afganginum af kryddleginum á kjötið meðan á eldun stendur.
Kjúlli með engifer og hvítlauk
- 1/2 dl sojasósa
- 2-3 tsk. sykur
- 4 msk. sesamolía
- 3 hvítlauksrif, marin
- 2 tsk. ferskt engifer, rifið
- grófmalaður pipar
Fallegt er að þræða stóra bita af alls kyns grænmeti, rauðlauk, sveppi, tómata osfrv. upp á pinnana og grilla með kjötinu en mér finnst ekki síður sniðugt að þræða grænmetið á aðra pinna og grilla þá sérstaklega.
Kaldar sósur
Það er nauðsynlegt að hafa góða sósu með kjúklingaspjótunum og finnast mér kaldar, frísklegar sósur yfirleitt passa best með.
Mangósósa:
Æðisleg sósa sem hæfir vel með hvers kyns kjöti og kjúkling.
- 3 msk. grísk jógúrt (eða sýrður rjómi)
- 2-3 msk. mangó chutney
- 1-2 tsk. fersk engiferrót, rifin
- salt og pipar
Öllu blandað saman og saltað og piprað að smekk.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.