Nú verður bjartara með hverjum deginum og það styttist hratt í okkar stutta sumar. Svo það er eins gott að bretta upp ermar og hefjast handa við að gera fínt í kringum sig í garðinum og/eða á pallinum.
Hér eru nokkrar hugmyndir sem heilla mig en ég ætla að taka pallinn minn í gegn fyrir sumarið. Mála spíturnar í stað þess að bera á þær og pimpa þetta svolítið upp eins og sagt er.
1. Hvítar spítur og farand – arinn
Þetta er æðislega fallegt. Í raun er þetta hefðbundinn útisófi en það er búið að dekka neðrihlutann með efni. Eflaust hægt að fá svona efni í IKEA eða bara sauma það og þá gildir einu hvað er undir. Vörubretti eða annað sem hækkar upp, ofan á má svo setja hvaða sófapullur sem er. Taktu eftir að hér er búið að mála pallinn hvítan. Kemur mjög vel út. Og þetta eldstæði er meiriháttar flott!
2. Hangandi stólar
Ég man eftir að hafa séð svona í Habitat fyrir nokkrum árum og langar enn að eignast svona hangandi egg. Ef það er hluti af pallinum hjá þér sem er yfirskyggður þá er ótrúlega næs að hafa svona stól hangandi þar niður. Líka inni reyndar, ef það er mátulega hátt til lofts.
3. Skipulag
Þetta er ekki stór garður en taktu eftir hvað hann er vandlega skipulagður. Og hér er það ekki BARA pallaefnið sem ræður ríkjum heldur er búið að blanda saman möl, steypu, hellum og gróðri í góðu jafnvægi. Mér finnst það persónulega klaufalegt hvað íslendingar nota nánast bara spítur þegar þeir eru að taka pallana sína í gegn. Það er svo mikið fallegra að blanda þessu aðeins saman.
4. Steyptu sófann
Garðsófarnir seljast upp um leið og þeir koma í Bauhaus og hinar búðirnar enda erum við öll komin inn á það að sófi á pallinn sé smartari en hvítir plaststólar. Það er jú svo kósý að hanga bara á pallinum. En hvernig væri að steypa þetta bara? Setja svo púða yfir og hafa það gott. Kemur mjög fallega út og svo væri jafnvel hægt að búa til hillur fyrir eldivið inni í þessu.
5. Arinn úti
Og talandi um eldivið. Hér hefur múrarameistarinn fengið að njóta sín! Grindverkið er steypt og arininn hlaðinn. Meira að segja sófinn er steypur. Ef þú ert þessi sem nennir ekki að standa í viðhaldi þá skaltu nota meiri steypu og minni við, en reyndu samt að blanda þessu saman það kemur yfirleitt fallega út. Reglan er sú að ef gólfflöturinn er steyptur þá ætti hlífðarveggurinn/grindverkið að vera úr við og öfugt.
6. Redda sér
Og hér má sjá hvernig hægt er að bjarga sér með smá smíðavinnu ef þú hefur ekki loft til að hengja stólinn upp í.
7. Gott feng shui
Rennandi vatn og eldstæði í miðjunni. Þetta myndu Feng Shui sérfræðingar vera sáttir við. Mjög flott nýting á litlu rými.
8. Viður og steypt
Eins og ég minntist á áðan kemur það yfirleitt hlýlega og fallega út að blanda saman steypuvinnu og viðarefni/pallaefni. Taktu eftir hvernig blómakerið er steypt í flottu samræmi við það sem er að gerast í kring. Í raun er betra að vinna með litla garða með þessum hætti, kostar minna og verður meira kósý.
9. Hellulagnir
Hér er plássið meira og þá hefur verið gerður einskonar göngustígur um garðinn sem er hlutaður niður í setustofu, borðstofu og gróðursvæði.
10. Ljós í pallinum
Hér sérðu enn og aftur hvernig pallaefni, möl, hleðslugrjóti og gróðri er blandað saman til að gera fallega útkomu í garðinn. Smart líka að setja ljós í pallinn. Blómapottarnir stóru koma jafnframt vel út. Mjög flott og góður innblástur fyrir framkvæmdirnar í vor!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.