Eitthvað það besta sem við getum gert fyrir sjálf okkur er að fegra heimilið. Hverjum líður ekki vel innra með sér þegar heimilið er fallegt?
Falleg blóm gera öll heimili hlýleg og notaleg. Það má vel hafa fyrir reglu að kaupa eitt rósabúnt í búðinni um leið og verslað er í helgarmatinn.
Búntið kostar þúsund krónur og er hægt að velja í öllum regnbogans litum: Gult, rautt, ljósbleikt, dökkbleikt eða appelsínugult og hafa þá servíettur í stíl ef þú býður vinum í mat.
Liturinn fer kannski bara eftir því hvort um er að ræða karlkyns vin eða vinkonur… bara það sem er skapi næst.
Séu rósirnar geymdar á köldum stað yfir daginn þegar þú ert í vinnunni, þ.e. nálægt glugga má njóta þeirra í rúma viku eða jafnvel tvær, eftir því hvað þú ert mikill snilingur.
Óbrigðult ráð til að lengja líftíma rósa er að skáskera örlítinn bút neðan af stilkunum, stinga rósunum síðan í sjóðandi vatn í nokkrar mínútur, setja þær svo í ferskt vatn ásamt blómanæringunni sem fylgir með þeim ásamt slettu af heita vatninu.
Það er svo ljúft og ánægjulegt að koma heim og sjá fallegar rósir á borði eða í glugga. Gerir lífið og heimilið rómantískara og fallegra.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.