Á sólríkum og heitum sumardegi hæfir sérlega vel að gæða sér á kaldri, frísklegri tómatsúpu sem jafnframt rífur aðeins í bragðlaukana. Einfaldari réttur er varla til og hollustan algjör. Gazpacho-súpan fræga er sannkallaður þjóðarréttur á Spáni og margir sem hafa kynnst henni í því landi. Ýmsar uppskriftir eru til að tómatsúpunni góðu.
Uppistaðan er þó vissulegar tómatar, en iðulega er agúrka og hvítlaukur ekki langt undan. Ýmsum kryddum, ferskum sem steyttum, er bætt í, lauk, stundum papriku, lauk, sítrónusafa, brauði og ediki. En það er með Gazpacho súpuna eins og svo margt annað, að gaman er að gera tilraunir með hráefnið og skella í súpuna því sem er við hendina í hvert skipti. Mér finnst best að láta hana ,,rífa dálítið í‘‘ – þá verður eftirbragðið svo dásamlegt. Því set ég dropa af tabasco-sósu út í en ég mæli með að farið sé varlega af stað í þeim efnum og að þið smakkið súpuna til. Öllu hráefni er síðan skellt í góðan blandara eða matvinnsluvél og helst látið standa í kæli í nokkrar klukkustundir áður en súpan er borin fram. Hér gef ég uppskrift að einni skotheldri útgáfu sem enginn tómatsúpuaðdáandi verður svikinn af. Uppskriftin er fyrir 4-6.
- 2 dósir niðursoðnir tómatar eða 6-8 tómatar og 2-3 dl vatn
- 1 agúrka, afhýdd og skorin í bita
- 1 msk. tómatkraftur
- 2-3 hvítlauksrif
- 2 shallotlaukar, skrældir
- 1 græn paprika, fræhreinsuð og niðurskorin
- handfylli fersk steinselja
- salt og grófmalaður pipar
- tabasco-sósa, nokkrir dropar
- sellerí, niðurskorið, sem meðlæti ofan á súpuna
Setjið í blandara eða matvinnsluvél og maukið saman. Smekksatriði er hvort þið viljið mauka hana algjörlega eða finna aðeins fyrir bitunum. Ef þið viljið þynna hana er einfalt að bæta smá vatni útí hana eða tómatsafa. Jafnvel smá köldu grænmetissoði. Kælið í a.m.k. 1-2 klukkustundir áður en súpan er borin fram. Í stað sellerís ofan á súpunni sem meðlæti er líka vinsælt að bera hana fram með ristuðum brauðteningum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.