Íslenskir garðar hafa breyst mjög á liðnum árum enda hefur lífstíllinn okkar breyst mikið og fæst höfum við tíma til að reita arfa og slá gras allar helgar.
Það er af sem áður var að fólk vildi stór tún í kringum húsin sín og nú eru það aðallega þessi sætu garðyrkjunörd sem fara út alla daga að róta í beðum sem nenna þessu. Við hin kjósum frekar að setjast út með blað og kaffi eða hvítt eftir vinnu, lesa og slappa af. Við viljum sem minnst viðhald og umstang enda er nóg af því á öðrum sviðum lífsins.
Steypa er frábær valkostur fyrir útisvæði við íslensk heimili enda er hún ekki svo dýr og þú þarft sama og ekkert að gera fyrir hana.
Urð og grót koma afskaplega vel út í görðum og með aðstoð góðs arkitekts, nú eða bara frjóu ímyndunarafli, ætti að vera hægt að búa til dásamlegan griðarstað við heimilið sem kallar ekki á þig með samviskubiti að nú verðir þú að fara að reita arfann og bera á pallinn, slá grasið…
Þú getur bæði pantað sérstakar steypueiningar hjá t.d. BM Vallá eða hreinlega sótt grjót út í náttúruna og svo er um að gera að skjóta niður fjölærum plöntum inn á milli.