Gallabuxur hafa alltaf verið gríðarlega vinsælar og flestar konur eiga amk einar, ef ekki tvennar, faldar inni í klæðaskápnum og nota við hin ýmsu tilefni.
Svo vinsælar eru gallabuxurnar að það ættu að vera til leiðbeiningar um það hvernig á að klæðast þessu svo að útkoman verði smart en ekki púkaleg.
Það er auðvitað númer eitt að finna buxur sem hæfa vextinum, því allar erum við sérstakar og viljum auðvitað að gallabuxurnar fegri okkur fremur en hitt. Það eru til góð snið fyrir konur sem eru hjartalaga, góð snið fyrir þær sem eru perulaga – málið er að finna það sem passar vextinum.
Margar íslenskar konur hafa langt bak, svipað og raunar skandinavar allir. Ætli ég flokkist ekki sem þessi bakgóða íslenska kona. Lengi vel átti ég einar uppáhaldsbuxur, þær voru mjög lágar í mittið og skreytti því bæinn með ekta, fallegum “plummer” þegar ég klæddist þeim. Í raun misklæddu þær mig mjög þar sem mittið var svo lágt að bakið á mér virtist endalaust. Ég var eins og systir hennar Stínu stöng, kærustu Stjána báa!!
Auðvitað eru líka til konur sem fíla ekkert nema mittislágt. Til dæmis er það vinsælt hjá frönskum og ítölskum tískumerkjum að hanna mittislágt. Þessar mittislágu buxur held ég að klæði einmitt ítalskar og franskar konur mjög vel. Af hverju? Jú, þessar suðrænu konur eru með styttra bak en við skandinvar og Frónarar. Í mittislágum buxum leiðréttast þess vegna hlutföllin í líkama ítalskra og franskra skvísa og þær virka baklengri!
Árið 2005 rambaði ég fyrir slysni inn í búðina Trilogiu sem hún Sæunn fatahönnuður rak þá. Hún hálfpartinn neyddi mig í svartar, þröngar gallabuxur, háar í mittið og þær mjókkuðu niður!! Ég bara gapti! Þarna komst ég samt á sporið – háa gulrótasniðið er sniðið sem hæfir mínum vexti. Auk þess fattaði ég að það er miklu flottara að vera í þröngum gallabuxum frekar en víðum.
Gallabuxur eru hálfgerður hversdagsfatnaður og með því að hafa þær þröngar verða þær skvísulegri og fínni. Allar konur ættu að eiga einar svartar gallabuxur sem hæfa þeirra líkamsbyggingu, þá er hægt að setja saman óteljandi flíkur við þetta og útkoman verður alltaf flott.
Vertu alveg ófeimin við að prófa þig áfram og fá aðstoð stílista í verslunum.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.