Við viljum litlu loðnu vinum okkar allt það besta og því skaltu leggja þennan lista á minnið.
Hér eru tíu matvæli sem hundurinn þinn ætti aldrei að fá í miklu magni. Sumt er alveg bannað en eitthvað á listanum má hann þó smakka í örlitlu magni.
1. Laukur og hvítlaukur
Flestir hundar forðast lauk og hvítlauk. Í mörgum blönduðum mat sem við borðum er hinsvegar að finna lauk og hvítlauk, td. lasagna og stundum pizza, og því skyldi maður ekki reyna að gefa hundum þetta sem afganga. Margir hundar hafa mjög slæmt óþol fyrir lauk en eituráhrifin koma oft ekki fram fyrr en fjórum dögum eftir að þeir hafa borðað laukinn. Það lýsir sér þannig að hundurinn verður mjög slappur og latur og þvagið getur orðið mjög dökkt. Upp úr þessu geta þeir orðið mjög veikir og jafnvel drepist.
2. Dökkt súkkulaði
Aldrei gefa hundum súkkulaði og því dekkra sem það er því hættulegra. Koffínið í súkkulaðinu fer nefninlega mjög illa í hunda og getur orsakað magakrampa og mikla vanlíðan. Ef þeir borða of mikið af súkkulaði getur það leitt þá til dauða og því skaltu bæði halda því langt frá þeim, (passa konfektkassann) og aldrei gefa þeim, þó þeir elski gotterí.
3. Lárpera/avókadó
Hundar hafa ofnæmi fyrir öllu sem tengist avókadóplöntunni, og líka ávextinum sem okkur finnst svo mikið lostæti en hýðið á ávextinum og steinninn eru hættulegustu hlutarnir. Hundurinn getur jú mjög auðveldlega kafnað á steininum í lárperunni og hann verður veikur í meltingarveginum af ávextinum.
4. Xylitol
Þetta gervisætuefni fer alls ekki vel í hunda og því skaltu halda öllum tyggjó og ópalpökkum langt í burtu frá voffa. Blóðsykurinn fellur mjög hjá hundum ef þeir innbyrða xylitol og lifrin þeirra á mjög erfitt með að vinna úr þessu.
5. Kjúklingur með beini
Kjötið sjálft er fínt en margir hundar hafa kafnað á kjúklingabeinum í gegnum tíðina og drepist. Þeim verður ekki meint af hráum kjúkling en beinin eru þeim stórhættuleg og því skaltu sjá til þess að það séu aldrei bein í kjúkling sem hundurinn þinn fær.
6. Matur með myglu
Ekki gefa hundinum þínum eitthvað gamalt jafnvel þó hann sé til í að éta það. Myglan fer oft mjög illa í meltingarveg dýrsins og getur orsakað sýkingu.
7. Maís stönglar
Hundar eiga mjög erfitt með að melta maís og því skaltu aldrei gefa þeim þetta. Kornin festast oft í þörmunum sem kallar svo á enn frekari vandamál.
8. Mjólkurvörur
Flest allir hundar eru með laktósa óþol og því skaltu aldrei gefa þeim mjólk eða mjólkurvörur. Þeir fá margir niðurgang af þessu og oft reka þeir við og þá kemur lykt sem engum finnst góð. Örlitlir ostabitar eða jógúrt kann þó að vera í lagi þar sem það er mjög lágt laktósa innihald í þessum vörum.
9. Hrár lax
Hundurinn þinn má ekki fá hráan lax vegna þess að hann inniheldur stundum örverur sem meltingarvegur hundsins þolir alls ekki. Eldaður lax og laxaroð eru hinsvegar mjög góðir fyrir hvutta, sérstaklega þar sem þetta inniheldur mikið magn af Omega 3 og D vítamíni sem er gott fyrir feldinn. Bara ekki of oft.
10. Lifur
Hundurinn þinn má fá litla skammta af lifur, svona sem nammi, en aldrei gefa honum mikið í senn því það getur auðveldlega kallað fram eituráhrif. Þetta orsakast af miklu A vítamín magni í lifrinni og slíkt getur leitt til lystarstols, ofvaxtar í beinum og fleiri vandamála.
Leggðu listann á minnið eða geymdu slóðina og deildu endilega með hundavinum og eigendum!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.