Mér er umhugað um dýravernd, umhverfisvernd og mannréttindi. Ég reyni því að velja góðar vörur þegar ég versla; helst vildi ég einungis borða lífrænan mat sem kemur í umhverfisvænum umbúðum og versla fatnað úr lífrænt ræktuðum efnum sem saumuð eru í umhverfisvænum verksmiðjum sem borga starfsfólki sínu góð laun.
En á Íslandi er erfitt að finna fatnað merkta Svaninum eða Evrópu-blóminu þó það sé til inn á milli og svo er nóg framboð af notuðum fatnaði sem er “umhverfisvænn” að því leyti að við erum að endurnota hann.
En hvers vegna er mikilvægt að velja umhverfismerktan fatnað?
Fata, skó og textíliðnaðurinn er einn stærsti iðnaður í heimi. Iðnaðurinn á sök á gífurlegri mengun (eiturefni úr klór, lycra, PVC, þungmálmum og leðurlitun) og notar mest magn vatns af öllum iðnuðum ef frá er talinn landbúnaður. Iðnaðurinn notar einnnig óskaplega mikla orku í formi olíu og rafmagns til að framleiða gerviefni og ekki má gleyma mengunin sem fragt með flugvélum og skipum veldur.
Hvers vegna er lífræn bómull betri?
Venjuleg bómullarrækt hefur 10% heildarhlutfall af landbúnaðarframleiðslu í heiminum en notar 25% af eiturefnum sem notuð eru í landbúnaði. En lífræn bómull er ræktuð án þess að notað sé eitur. Bændurnir nota aðrar leiðir í stað þess að nota tilbúna áburði. Gagnleg skordýr og aðrar leiðir en þær hefðbundnu við uppskeruna gera það að verkum að hægt er að komast hjá því að nota eitur.
Vinnuafl. Það vinnur milljarður manna í fataiðnaði við óviðunandi kjör. Margir bómullarbændur lifa undir fátækramörkum við þrælaaðstæður þar sem eftirspurnin eftir síódýrari framleiðslu er stöðug. Á sama tíma veldur þetta atvinnuleysi í vestrænum ríkjum þar sem fyrirtæki leita til Kína, Burma, Filippseyja og Mexíkó til að framleiða ódýrt.
20.000 manns deyja árlega vegna eiturefna sem þeir vinna með í bómullariðnaðinum,(samkvæmt WHO) og auki fremja að meðaltali 200.000 bómullarbændur sjálfsmorð vegna skulda sem þeir koma sér í við kaup á eiturefnum til framleiðslunnar. En ef bómullarbændur geta ræktað lífrænt þá snýst dæmið við; bændur munu auka tekjur sínar um 50% vegna 40% lægri kostnaðar við ræktun og 20% hærra söluverð á lífrænu bómullinni.
Lífræn bómullarrækt er lausn bómullarbænda á betri lífskjörum og lausn okkar allra til að menga ekki jörðina okkar meir en við þurfum, það er á ábyrgð okkar sem neytendur að sækjast eftir lífrænt vottuðum vörum, við verðum að muna hvers vegna þær eru örlítið dýrari, það er vegna þess að við erum að borga fyrir gæði og kaupa vöru sem stuðla að bættari lífsgæðum allra sem að henni koma.
Sjálf þurfti ég smá áminningu þegar ég sá fyrir mér að missa mig í ódýrum verslunum eins og H&M þegar ég fer til Parísar í næstu viku og kaupa og kaupa…
En ég þarf þess samt ekki, mig eða fjölskyldu mína skortir ekki mikið af fötum, við getum hæglega komist af með minna og ég vil frekar reyna finna umhverfismerktan fatnað og kíkja í vintage búðir en að missa mig í innkaupaham í H&M. (Tek samt fram að þar er hægt að finna örlítið magn umhverfismerktra vara!!)
Ég mun því leggja áherslu á að finna umhverfismerktan fatnað í tískuborginni París og kaupa eitthvað vandað og vænt enda verð ég þar í þeim tilgangi að finna framleiðendur og funda með samstarfsaðilum fyrir hönd íslenskt fyrirtækis sem er með metnaðarfulla umhverfisstefnu!
Kem nánar að því síðar… 😉
Þangað til langar mig að hvetja okkur til að hafa það í huga að lífrænt og “fair trade” er alltaf betri kostur.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.