Pjattrófunum berast reglulega skemmtileg bréf með margskonar fyrirspurnum sem við reynum að svara eftir fremsta megni.
Hér er nokkuð skemmtilegt bréf frá metró-strák á besta aldri en Vala tók að sér að svara kappanum.
Sælar pjattrófur,
Mig langaði að spyrja ykkur hvort, og þá í hvaða tilfellum, karlmenn megi nota brúnkukrem? Málið er að ég svo gott sem krúnuraka á mér kollinn vegna hárra kollvika og sífellt þynnra hárs á toppnum. Fyrir vikið verður hausinn á mér svolítið eins og ljósapera nema ég sé með góðan lit.
Ég tel mig hóflega metró og pjattaðan og spyr mig oft hvort ég sé að fara yfir strikið hérna. Nota mest einnota towelette frá EasySun sem kemur nokkuð vel út. Ég fer í ljós á viku til tveggja vikna fresti til að viðhalda sæmilegri líkamsbrúnku og nota svo kremið til að kalla hana betur fram.
En það nagar mig svolítið hvort metrómennskan sé komin út fyrir velsæmismörk með þessu. Persónulega finnst mér brúnkukrem á karlmönnum slæm hugmynd sem yfirleitt mislukkast herfilega, en í mínu tilfelli, tilfelli hinna sköllóttu, finnst það réttlætanlegt.
Hvað finnst ykkur?
Bestu kveðjur, Gaur
Elsku Gaur,
Ég fór á stúfana til að finna ráð til að minnka glansinn á skallanum án þess að nota brúnkukrem, þú getur farið í næsta apótek og fengið Tea Tree olíu og borið hana á þig með bómullarhnoðra eftir rakstur. Það sótthreinsar húðina og gerir áferðina mattari (má nota í stað rakspíra). Svo getur þú keypt þér after shave rakgel fyrir feita húð, þau eru framleidd til að minnka glans og fást margar tegundir í öllum lyfjaverslunum. Svo er það púðrið en þú getur fengið púður-þurrkur og “dúmpað” þeim á glansandi svæði. Slíkar púðurþurrkur fást t.d. í Body Shop.
Að mínu mati þá er alveg óþarfi að vera brúnn þó þú sért með skalla, mér finnst það soldið metró og alveg á mörkunum að vera ókei. En ef þú vilt vera brúnn þá má ALLS EKKI sjást að þú notir brúnkukrem!
Það þýðir að þú verður að bera það á þig þannig að það sé jafnt og skrúbba hendurnar mjög vel á eftir svo ekki sjáist förin eftir kremið, þú verður að forðast í lengstu lög að verða eins og Ásgeir Kolbeins ef þú vilt ekki fara yfir metró-velsæmismörk.
Varðandi ljósabekkjanotkun þína þá er alls ekki ráðlagt að fara svona oft í ljós og ef þú ferð einstaka sinnum í ljós samt þá verður þú að nota góða sólarvörn.
Hér eru svo nokkrir flottir gaurar með skalla: Ath! að þeir eru ekki sérstaklega brúnir 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.