Í vikunni sem leið skellti ég mér á sýningu á dansverki eftir Katrínu Gunnarsdóttur í Kassanum. Verkið ber nafnið KVIKA og er ærið sérstakt.
Það var mjög skemmtilegt og fróðlegt að fara á þessa sýningu. Hún vakti mig til umhugsunar og skildi alveg helling eftir sig. Ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast þegar ég fór á verkið en mig grunaði sterklega að það væri að fara að koma mér reglulega á óvart. Sem það svo gerði.
Dans er svo persónulegt fyrirbæri. Það dansar enginn eins og dans kemur í svo mörgum birtingarmyndum, allskonar eins og tónlist og hugsanir. Ég mæli með því að þið farið á þessa sýningu. Helst á stefnumót, ákjósanlegast á fyrsta deiti.
Þið sem eruð einhleyp bjóðið í leikhús. Það er töff! Ekki fara á barinn. Megið samt endilega fara á barinn eftir á en ég lofa ykkur fegurð, húmor, erótík og skemmtun ef þið farið á þessa sýningu!
Fyrir framan annað fólk
Svo var það kvikmynd helgarinnar. Ég elska bíómyndir og hef alltaf gert, uppáhalds bíómyndin mín er Paris Texas eftir Wim Wenders. Svona fáránlega hæg mynd með gullfallegum skotum og grátbroslegum raunveruleika.
Helst vil ég samt horfa á fjöldamorðingjamyndir eða mafíósa myndir svo það var allt annað uppi á teningnum þegar ég fór að sjá nýjustu mynd Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk.
Það eru reyndar engir mafíósar í Fyrir framan annað fólk og þetta er rómantísk gamanmynd sem er yfirleitt ekki minn tebolli en ég skemmti mér alveg konunglega yfir þessari mynd. Kannski eru íslenskar rómantískar gamanmyndir þær rómantísku gamanmyndir sem ég hef beðið eftir? Mögulega er að hefjast nýtt skeið í mínu lífi.
Þessi var svo sæt, falleg, sönn, fyndin já alveg ótrúlega fyndin og aðalleikararnir alveg brilliant. Allir í bíó! Áfram íslensk kvikmyndaframleiðsla.
Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söng og leikkona, er flestum landsmönnum kunn. Hún hefur áhuga á ótal mörgu, en þó aðallega tónlist, móðurhlutverkinu, kvenhlutverkinu, ástinni, listinni og lífinu. Hún er í farsælli sambúð og á eina dóttur.