Þetta “geðþekka” par eru þau Anna Wintour og hægri hönd hennar André Leon Tally. Þau eru í hópi valdamestu einstaklinganna í tískuheiminum, skoðun þeirra er álitin rétt, alltaf.
Ef þau hefðu verið uppi í Grikklandi til forna þá væru þau guðir.
Mér hefur alltaf þótt þetta svo skondið, að sjá þessa tvo fýlupúka í fremstu röð með vandlætissvip á öllum sýningum og restin af tískuheiminum með öndina í hálsinum að bíða eftir dómi þeirra. Hvernig verður fólk svona valdamikið og mikils virt? Anna Wintour er “bara” ritstýra ameríska Vogue, hún hefur unnið hörðum höndum alla ævi og um hana hafa verið gerðar bíómyndir The devil wears prada og heimildamyndin September issue.
Hún er hæfileikarík og hörkudugleg kona, en það á engin skilið það vald sem hún hefur og gvuð hjálpi þeim sem eru henni ósammála!
Við gerð myndarinnar September issue var henni fylgt eftir í 9 mánuði, við sáum hverskonar heljartök hún hefur á starfsfólki sínu og öllum í bransanum. Hún fær að sjá nýjustu línu Yves Saint Laurent fyrst allra og grettir sig á meðan á sýningu stendur sem fær Stefano Pilati (creative director YSL) til að fara á taugum, hún lætur liðið hjá Oscar de la Renta hætta við heilu outfittin og það efast enginn um að skoðun hennar sé ekki rétt.
En eitthvað er Anna að gera rétt, hún ritstýrir ekki bara mest selda tískublaði í heiminum heldur stjórnar hún líka því hvað helstu hönnuðurnir láta frá sér með því einu að gretta sig.En ég spyr mig samt:
- Er nauðsynlegt vera fýlupúki til að ná svona langt?
- Er nauðsynlegt að vera “vondur ” við fólk til að það geri sitt besta?
- Hvernig líður Önnu í lok dags?
- Skipta tilfinningar annarra hana engu máli á meðan allt gengur eftir hennar áætlun?
September issue sýnir svo vel hvernig tískuheimurinn er í raun og veru. Það eru svo margar “Önnur” í bransanum sem halda að maður komist ekkert nema með hörkunni og það er einmitt það sem gerir hann óaðlaðandi og eins mikið og ég elska tísku þá þoli ég ekki þessa “ómennsku” sem viðgengst í þessum heimi.
Eins “væmin” og ég kann að hljóma þá vona ég að kurteisi, jafnræði og góðmennska muni ná fótfestu í tískubransanum því eins og hann er þá virðist hann vera síðasta vígi gömlu yfirstéttarinnar.
Þar ríkja miðaldargildi þar sem Anna Wintour og André Leon Tally eru kóngur og drottning.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.