Lífstykki eru varla notuð lengur nema af gömlum konum sem vöndu komur sínar í Lífstykkjabúðina í denn.
Fyrir þau sem ekki vita það er lífstykki eins konar spennitreyja án erma sem nær rétt yfir brjóstin.
Aftan á því eru reimar sem hægt er að strekkja þar til mittið kemur í ljós og rúmlega það.
Eftir að kvenfrelsi gerði vart við sig í lok þar síðustu aldar, og lífstykkin fóru úr tísku, voru margir sem söknuðu þeirra sárt. Svo sárt að í kringum 1930 byrjuðu lífstykkjaaðdáendur að hópa sig saman og margar greinar um ágæti lífstykkja og stundaglas lögunarinnar voru síðar gefnar út í tímaritinu Bizarre sem var gefið út af John Willie frá 1946 til 1961.
Þar lýstu áhugamennirnir allskonar lífstykkjum í smáatriðum og töluðu um að fátt væri fallegra í laginu en bókstafurinn B, meinandi þá að líkaminn væri orðin eins og B í laginu.
Í dag má einna helst sjá eima af lífstykkjastemmningunni í bdsm blöðum og bókum nútímans en einstaklingar sem sverja sig við Goth lífstílinn eru jafnframt oftar en ekki heillaðir af þessu óþægilega fyrirbæri.
Madonna hefur reyndar líka gert lífsstykkjum góð skil þegar hún var í samstarfi við Jean Paul Gaultier hér um árin en í dag er hún örugglega bara í aðhaldsbrókum innundir fötunum eins og við hinar.
Lífsstykkið jafnvel bara inni í svefherbergi og dregið fram við sérstök tilefni… eða hvað vitum við? Svosum ekki mikið.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.