Og ég er farin að blogga aftur! Ekki hefði ég haldið á síðasta ári (fyrir nokkrum dögum sem sagt) að það myndi gerast. En það er ákveðin skýring sem ég ætla að vinda mér beint út í. Það er þetta með áramótaheitið, það er engin kona með konum nema annað hvort strengja áramótheiti eða koma með hástemmdar yfirlýsingar um að gera ekki áramótaheiti.
„Fuck it vs Bucket”
Ég gerði sem sagt tvö. Er komin með “fuck it” lista (svona til mótvægis við “bucket” listana frægu). Nú ætla ég að setja fullt á þennan “fuck it” lista: Allt sem mér finnst að ég ætti kannski, örugglega að gera en nenni ekki eða hef ekki áhuga á, það á allt að fara á þennan lista. Ég fann að ég er að gera fullt af hlutum sem ég hef engan áhuga á bara af því það passar við minn aldur eða af því ég er kona eða eitthvað annað bull. Nú verður breyting þar á. Þetta er nýtt frelsisafl í mínu lífi, ég er viss um það!
Ég fann að ég er að gera fullt af hlutum sem ég hef engan áhuga á bara af því það passar við minn aldur eða af því ég er kona eða eitthvað annað bull.
Hitt áramótaheitið er skylt þessu fyrra en það er að segja JÁ við öllu sem mig langar að gera en þori kannski ekki alveg eða held að sé ekki alveg við hæfi. Má ekki segja nei. Stundum koma upp tilvik sem skynsemin segir að nú væri við hæfi að segja nei en núna á þessu ári verð ég að segja já. Neita að láta aldurinn stjórna mér en hann hefur gert það fram að þessu, alla vega að einhverju leyti. Nú veit ég að einhverjir segja ha? Lætur þú aldurinn stjórna þér? Já, já auðvitað geri ég það, allflestar konur gera það á einhverju tímapunkti. Bara spurning hvort það sé eitthvað sem þarf að vera þannig eða að snúa blaðinu við.
Gamall vinur sagði við mig í gær „Láttu ekki svona, þú varst alltaf svo hvatvís. Komdu aftur hvatvísa kona og segðu já”.
Ég horfði á viðkomandi og hugsaði, hvatvís? Ég? Og svo fór ég að hugsa og já, ég hef gert ýmsa hvatvísa hluti og skemmti mér yfirleitt alveg stórkostlega. Þannig að nú á að grafa þessa hvatvísu upp aftur, hrista aðeins af henni rykið og athuga hvort lífið taki ekki viðsnúning!
Blogg er lífið
Það fyrsta sem kom til mín eftir að ég strengdi þetta áramótaheit var spurningin um að byrja aftur að blogga. Þess vegna sagði ég já. Ég var hætt því, búin með þann kafla. Búin að bulla svo mikið um ævina að það hálfa væri nóg. En nú er árið rétt byrjað og ég byrjuð að blogga. Auðvitað ætlaði ég að segja nei og það var komið fremst á tungubroddinn en þá mundi ég eftir þessum tveimur áramótaheitum og þetta voru sko tvær flugur í einu höggi: Já og “fuck it” geri það bara. Bloggskrifin eru ekkert í námunda við neina hvatvísi en þar sem vinnutíminn er frekar langur hjá mér þá er þetta ekki beint skynsamlegt, en hey “fuck it” og reynum að skemmta okkur aðeins!
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.