Nýlega útskrifaðist þriðji hópurinn í Fræði og framkvæmd, frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Námið er sem sagt enn nokkuð nýtt af nálinni.
Það eru aðeins eru um 8 – 10 manns í hverjum árgangi og tekið inn annað hvert ár. Ekki er það þó aðeins það að námið sé nýtt og fáir sem leggja stund á það, heldur gefur nafnið ósköp lítið til kynna um hvað það snýst.
Margir sem hafa útskrifast með BA gráðu í Fræðum og framkvæmd eiga í vandræðum með að finna sér starfstitla, þetta fólk kallar sig ýmist leikhúsfræðinga, performannslistamenn, leikstjóra, leiksskáld, sviðslistamenn og fleira sem ég kann að nefna.
Hið óþjála nafn námsins felur því bæði í sér, að því er virðist, möguleika sem og vandamál. Raunar hafa margir útskriftarnemarnir gengið svo langt upp í húmornum á sjálfum sér að vera búnir að læra “Frægð og frama”.
Fræði og framkvæmd er í sínum víðasta skilningi leikhúsfræði. Fólk sem ástundar námið lærir um fræðin og heimspekina sem snýr að sviðslistum, þ.e. “Fræði” og svo læra þau að hagnýta þessi fræði í rými, þ.e. “framkvæmd”. Sniðugt?! Já frekar, en nafnið?
Ég virðist vera snillingur í að velja mér nám sem erfitt er að útskýra sökum nafngiftar. Um þessar mundir legg ég stund á Hagnýta menningarmiðlun. Mér líkar sú nafngift mun betur en Fræði og framkvæmd en stend mig þó að því sí og æ að útskýra hvað það er. Það fylgir því að velja eitthvað nýstárlegt og spennandi að þurfa að útskýra svolítið, en a.m.k. liggur það í orðunum – Námið nýst um að miðla menningu á hagnýtan hátt! Enginn galdur þar á bakvið annar en þær aðferðir sem við erum þjálfuð í, í gegnum skrif, sýningar á safni eða lifandi miðlun á efni á sviði eða í gegnum kvikmyndun og í raun allt sem manni dettur í hug að miðla. Svo eru valkúrsar á borð við markaðssetningu, heimildarmyndagerð o.fl.
Ég mæli með bæði Fræði og framkvæmd og Hagnýtri menningarmiðlun en verið bara undirbúin fyrir það að þurfa að útskýra hvað þetta gengur allt saman út á. Í raun er maður að ryðja braut sem fáir hafa fetað. Það er líka einmitt það sem er svo spennandi, að fá tækifæri til þess að móta sér eigin stefnu og til þess að finna sína eigin leið í hinum stóra og víða menningarheimi.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.