Frumkvöðlar spretta nú upp eins og vorlaukarnir sjálfir í öllum regnbogans litum enda mjög spennandi verkefni að fara út í eigin rekstur, fylgja hjartanu og skapa sjálf eitthvað nýtt.
Japanski veitingastaðurinn Nobu er nokkuð frægt konsept ytra. Það er áhugavert að sjá hér viðtal við stofnanda staðarins Hr. Nobu um tilurð veitingahússins og markmið með rekstrinum. Mest um vert er þó að heyra hvernig hann fikraði sig áfram skref fyrir skref… þyrnum stráða leið. Karlinn er óendanlega þakklátur erfiðleikunum, hann segist hafa lært langmest í gegnum súru tímana, sérstaklega að þolinmæði þrautir vinnur allar.Takið líka eftir hvað maðurinn er hógvær – hann þakkar viðskiptavininum fyrir að vilja snæða hjá sér. Og þeir vilja það svo sannarlega. Það eru hvorki meira né minna en 20 veitingastaðir sem bera Nobu-nafn kokksins víðsvegar um heiminn!
NOBU ÁTTI SÉR DRAUMA: Verða sushi kokkur – Eiga veitingastaði í mörgum löndum
Fyrstu þrjú árin tók hann að sér öll störf, vaskaði upp, fór með sendingar, skúraði gólfin. Hann snerti ekki á sushi þótt hann kynni að hreinsa fisk og skera. Draumurinn leiddi hann til S-Ameríku þar sem hann opnaði fyrsta veitingastaðinn í Perú. Hann dró sig út úr rekstrinum, flutti aftur til Japan og þaðan til Alaska, en þar hafði hann heyrt að sniðugt væri að opna stað. Innan nokkurra daga brann allt í Alaska til kaldra kola, Nobu missti allt sitt en er í dag þakklátur þeirri þolraun.
Árið 1987 var Nobu loksins búinn að vinna sig út úr bruna- og skuldasúpunni. Hann flutti til LA og stofnaði veitingastaðinn Matsuhisa, fyrsta fyrirtækið sem gekk vel. Hann fór í kjölfarið út í gott viðskiptasamstarf með leikaranum Robert De Niro. Velgengnin hefur elt Nobu síðan… veitingastöðunum og viðskiptavinum þeirra fjölgar og Nobu þakkar þolinmæðinni árangurinn. Hann hugsar oft um brunann í Alaska og það sem hann lærði á erfiðleikunum… þeir voru í raun lykillinn að velgengninni!
Þessi maður kveikir í mér big time – og HÉR er viðtalið.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.