Alliance Française í Reykjavík var stofnað árið 1911 og fagnar því aldarafmæli í ár. Af því tilefni býður félagið til sýningar eitt af meistaraverkum franskrar kvikmyndagerðar; gullmolann “A bout de souffle” eftir Jean-Luc Godard á franskri kvikmyndahátíð sem nú stendur yfir í Háskólabíó.
Á hátíðinni verða meðal annars sýndar kvikmyndir sem hafa slegið í gegn meðal almennings í Frakklandi og í öðrum Evrópulöndum. Eins verða sýndar myndir sem skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu mætur á og var þá fjölbreytileikinn hafður í fyrirrúmi. Nú má finna bæði spennu, drama, gaman, ást og ævintýri á frönsku kvikmyndahátíðinni í Háskólabíó.
Kvikmyndir sem ættu að höfða til breiðs hóps kvikmyndaáhugamanna á öllum aldri og það góða er að myndirnar eru allar með enskum texta og tvær með íslenskum. Á hátíðinni eru einnig myndir sem gerast í frönskumælandi löndum utan Evrópu, þá komu Kanadamenn að hátíðinni fyrir þremur árum og gera það einnig nú.
En aftur að “A bout de Souffle”.
Hafirðu ekki séð þessa perlu kvikmyndasögunnar er tækifærið núna. Í aðalhlutverkum eru Jean-Paul Belmondo og hin gullfallega Jean Seberg en saman lenda þau í ævintýrum í París á sjöunda áratugnum. Kvikmyndin þykir m.a. eftirtektarverð fyrir sérstakt plott og nýstárlega myndatöku. Notaðar eru kvikmyndatökuvélar sem hægt er að halda á og leikstjórinn skiptir auðveldlega um sjónarhorn á sömu persónunni á örfáum sekúndubrotum. Stílfærð og flott myndataka sem þekktist ekki þá.. og kemur enn á óvart í dag.
Svo eru hér upplýsingar um dagskrá kvikmyndahátíðarinnar, þess má geta að fimm af myndunum á hátíðini verða sýndar á Akureyri í febrúar: www.af.is
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.