Alliance Française í Reykjavík, Sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið kynna franska kvikmyndahátíð, sem verður haldin í 10. sinn dagana 15. til 28. janúar í Háskólabíói.
Í Frakklandi stendur kvikmyndaiðnaðurinn traustum fótum, franska ríkið styður ötullega við bakið á kvikmyndagerðafólki og þar hafa orðið til merkilegar nýjungar í kvikmyndagerð, frægust þeirra væntanlega Nouvelle Vague aldan.
Undiralda sem gaf af sér margar feykilega góðar myndir eins og svo sem „A Bout de Souffle“ eftir Jean-Luc Godard með þeim Jean Seaberg og hjartaknúsaranum Jean-Paul Belmondo.
Franskar bíómyndir eru litlir konfektmolar fyrir bíóáhugafólk, enda er einkenni þeirra oft á tíðum mjög góð plott, sterk persónusköpun og alls óvæntur endir.
Opnunarmynd frönsku kvikmyndahátíðarinnar í ár kemur allri fjölskyldunni til að brosa, gamanmyndin „Le Petit Nicolas“ eða „Nikulás litli“ sem var langvinsælasta kvikmyndin í Frakklandi 2009 með yfir 5 milljónir áhorfenda.
Myndin er byggð á samnefndri persónu eftir höfund Astérix eða Ástríks (og Steinríks).
Dagskrá hátíðarinnar er annars mjög fjölbreytt, þar verður spenna, glens og gaman í bland við drama og heimildarmyndir eins og þær gerast bestar.
Fyrir þær sem vilja skyggnast inn í franskan kvikmyndaheim og kynnast ef til vill franskri menningu um leið er kvikmyndahátíðin kjörið tækifæri til þess.
Í ár verða myndir frönsku kvikmyndahátíðarinnar einnig sýndar á Akureyri, frá 5. febrúar.
Lýsing á myndum hátíðarinnar er hér
Dagskrá hátíðarinnar er hér
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.