Sem mikil áhugamanneskja um vín þykir mér tilvalið að skrifa um eina af mínum uppáhalds þrúgum.
Pinot Noir kemur upprunalega frá Búrgúndí héraði í Frakklandi. Þetta ljúffenga vín er ljóst að lit með litlu, til meðal miklu magni af tannín en tannín er náttúrlegt efni sem stundum finnst í trjáberki og í hýði, steinum og stilk sumra ávaxta – einkum sumra rauðra vínberja. Pinot Noir þrúgan er frekar létt og einkennandi berjategundir í henni eru kirsuber, jarðaber, hindber og trönuber.
Pinot Noir berin eru frekar erfið til ræktunar. Skinnið á berjunum er þunnt og þetta gerir þau viðkvæmari fyrir veðrum og vindi. Þau ræktast best þar sem vorið er langt og haustið líka. Svæðin sem þau eru ræktuð á skipta yfirleitt miklu máli sökum þess hversu viðkvæm þau eru og sérfræðingar geta auðveldlega greint hvaðan vínin koma af bragðinu sem þeim fylgir. Eins og við vitum geta árstíðirnar líka verið mismunandi sem og árferðið og það gerir árgangana af víninu mismunandi.
Pinot Noir vín frá Frakklandi, Búrgúndí vín, eru til dæmis með mjög afgerandi bragð af hverju héraði fyrir sig. Rauð ber, jarðlitir tónar og léttari vín eru einkennandi fyrir Frakkland en Pinot Noir vín frá Bandaríkjunum einkennast frekar af dökkum kirsuberjum, eru ögn dekkri og oft hærri í áfengismagninu.
Helstu framleiðendur Pinot Noir
Frakkland, Búrgúndí svæðið, um 75.000 ekrur.
Bandaríkin með um 73.000 ekrur
Þýskaland, Nýja Sjáland, Ítalía, Ástralía, Chile, Argentína og Suður Afríka.
Þar sem það er föstudagur, er tilvalið að opna eina Burgundy Pinot Noir í kvöld, finna sér góðan félagsskap og njóta, helst með léttum smáréttum eða góðu, dökku súkkulaði. Ég mæli með Gevrey-Chambertin, Chateau de Santenay eða Louis Jadot Couvent des Jacobins.
Svo er tilvalið að kíkja á hann Titus hérna taka lagið um Pinot Noir en hann var frekar eftirminnilegur í þáttunum um Unbreakable Kimmy Schmidt. Mikill aðdáandi Pinot og lét framleiða sína eigin tegund af Pinot Noir víni í kjölfar vinsælda þáttanna.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður