Undanfarin eitt til tvö ár hefur mér fundist áberandi og einkennileg “tíska” vera í mínum bæjarhluta sem er 101 RVK.
Það verður nefnilega æ meira áberandi að ungir og myndarlegir menn, sem áður sprönguðu um vel snyrtir og flottir í tauinu, séu farnir að safna skeggi og hári og jafnvel bumbu og ganga um í „luralegum“ fötum .
Þar sem þetta byrjaði fyrir hrun og kreppu þá var mér spurn hvað olli þessu og ákvað að spyrja einn sem eitt sinn var vel þekktur sem kvennagull í bæjarlífinu.
Svarið stóð ekki á sér, hann var kominn með leið á kvennafari og innihaldslausum samböndum og þreyttur á að konur féllu fyrir honum vegna útlitsins, hann vill láta taka sig alvarlega.
Nú er maður svo þröngsýnn að mér hefði aldrei dottið í hug að karlmenn gætu lent í þessu. Það er alþekkt að fallegar konur eiga oft erfitt með að láta taka sig alvarlega en að karlmenn gætu orðið fyrir þessu er alveg nýtt fyrir mér.
En þetta er svosem góð og gild ástæða fyrir að fríðir karlmenn eru farnir í felur þó mér finnist hálf sorglegt að heyra að laglegir menn (sem íslenskar konur kvarta sáran yfir að sé vöntun á) verði fyrir svo miklum fordómum að þeir þurfa að fela sig á bakvið sítt hár, skegg og víðan klæðnað til að tekið sé mark á þeim.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.