Það hefur verið erfitt að fylgjast með fréttum síðustu daga. Fjöldamorð í Noregi, andlát Amy Winehouse, verðbólga á Íslandi og síðast en ekki síst hungursneyð í Austur – Afríku!
Það á ekki fram af manni að ganga og verst er vanmáttartilfinningin sem maður fær. Ég vil ekki vera með áróður af neinu tagi en langar að benda á nokkra hluti:
1) Það hefur verið stofnuð vefsíða vegna fjöldamorðanna í Noregi. Þar getur maður smellt á einn tengil og þar með lýst yfir andúð sinni á ofbeldi og sýnt Norðmönnum samúð. Hérna er tengillinn.
2) Varðandi Amy, veit ég ekki hvað skal segja! Ofdrykkja og eiturlyfjaneysla hefur aldrei verið uppskrift farsælu lífi. Vonandi sér fólk það. Svo hlýtur að vera til sjálshjálpargrúppa á Facebook fyrir aðdáendur í sorg.
3) Verðbólga… Ok. ég viðurkenni vanmátt minn en stundum er það líka hollast. Annars eru meginástæðurnar ljósar: verðhækkun á olíu, hrávöru, húsnæði og opinberri þjónustu. Svo er eftirspurn eftir lánsfé lítil, fjárfestingar í lágmarki og atvinnuleysi hátt. Stjórnvöld geta snúið þessu við. Ég mæli með rafmagnsbílum! Þá myndu allavega einhver hjól snúast 😉
4) Hungursneyðin í Austur – Afríku er hræðileg. Í Sómalíu hefur verið styrjaldarástand í áratugi og matvælaverð þar hefur hækkað. Þurrkar um austanverða Afríku hafa ekki verið jafn slæmir í meira en hálfa öld. Meirihluti þeirra sem þjást eru börn. Það kom mér því á óvart er ég sá að í skoðanakönnun (sennilega ekki mjög fagmannlega unnin þó) sem gerð var á dögunum, að aðeins 15,9% þáttakanda sögðust hafa gefið fjármagn í söfnun en 84,1% höfðu ekki enn látið neitt af hendi rakna. Þessvegna ætti fólk að gefa, þótt ekki væri nema eitthvað, til hjálparstofnanna. Þar má nefna Unicef, Rauða Krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar (eða bara leita til hvaða hjálparstofnunnar sem maður þekkir og treystir).
Þessir fyrstu og síðustu punktar snerta hvað mest við mér þessa dagana. Þrátt fyrir að í raun sé ekkert við hlutunum að gera, má samt sýna stuðning sinn í verki! Það þarf ekki að kosta mikið.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.