Hvað er vestfirskur leikari að gera á Seltjarnarnesi, hver var sveitaómaginn Magnús Hj. Magnússon og hvernig tengist hann Ólafi Kárasyni í Heimsljósi Halldórs Laxness?
Þessu getur Ársæll Níelsson leikari svarað en hann bregður sér í gervi ómagans Magnúsar í leikritinu um SKÁLDIÐ Á ÞRÖM sem er sýnt í leikhúsinu NORÐURPÓLNUM um þessar mundir.
Upprunalega setti Ársæll verkið upp á Suðureyri við Súgandafjörð en þar hefur leikarinn búið undanfarin ár og þar lifði skáldið Magnús sín síðustu ár og skrifaði sig fram á grafarbakkann. Í verkinu sjáum við skáldið sitja af sér nauðgunardóm í fangaklefa og fara yfir ævi sína og daga. Sjáðu hér viðtal sem Þórhallur Gunnarson tók við Ársæl fyrir Djöflaeyjuna síðasta vor:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=zOa-ocEdRrc[/youtube]
SKÁLDIÐ Á ÞRÖM var upprunalega frumsýnt í Dymbilvikunni í Félagsheimilinu á Suðureyri og Elfar Logi Hannesson leikstýrði verkinu auk þess sem hann skrifaði leikgerðina með Ársæli. Jóhann Friðgeir Jóhannsson sá um tónlistina og Jóhann Daníelsson hannaði lýsinguna.
Pjattið kom að máli við Ársæl og forvitnaðist… m.a. um hvers vegna tveggja barna faðir og leikari frá Suðureyri leggst í víking til að sýna stykkið á mölinni.
“Maður vill auðvitað alltaf reyna að koma sköpunarverki sínu fyrir sjónir sem flestra. Ef maður hangir bara í litlu sjávarþorpi úti á landi með leikverk þá flýgur það ekki hátt. Svo verður maður líka að sýna sig og sanna til að eiga séns í þessum bransa,” svarar Ársæll kankvís.
Um hvað fjallar verkið?
“Í verkinu segir Magnús Hj. Magnússon, eða Skáldið á Þröm eins og hann var kallaður, í eigin orðum frá ævi sinni. Magnús var sjálfmenntaður fræðimaður sem var uppi um þar síðustu aldamót. Hann var sveitaómagi og sjúklingur sem þurfti að þola ótrúlegt mótlæti og harðræði á sinni ævi,” segir Ársæll sem fékk áhuga á persónu Magnúsar þar sem skáldið eyddi síðustu árum ævi sinnar á Suðureyri og þar var honum síðar reistur minnisvarði. “Steindór Andersen benti mér einhvern tíman á það yfir kaffibolla að þetta væri maður sem ég þyrfti að kynna mér og fjalla um. Svo að ég tók hann á orðinu.”
Hvað er verkið langt, hvað kostar inn, hvernig nær maður sér í miða og hvar er þetta sýnt?
Verkið tekur 50 mínútur, miðinn kostar 2.900, fæst hjá midi.is og leikritið er sýnt í Norðurpólnum úti á Seltjarnarnesi.
Hvað gerist svo næst hjá þér — hvað er á prjónunum?
Næst ætla ég í helgarferð til Köben. Síðan fer ég aftur vestur, faðma konuna og börnin og geri mig svo kláran í að leikstýra áhugaleikfélaginu á Suðureyri.
Liðskonur pjattsins ætla að drífa sig á verkið… og við skorum á alla leikhúsunnendur að kíkja líka… næra andann og styðja um leið við einstaklingsframtakið og listina.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.