Í fréttum á RUV í gær var sagt frá því að erlendir glæpamenn reyna í auknum mæli að svíkja fé út úr fólki með því að leigja því íbúðir sem eru í rauninni ekki til. Dæmi séu um að fólk hafi tapað mörg hundruð þúsund krónum á svindlinu.
Mikil eftirspurn sé eftir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, en framboðið af skornum skammti. Þetta ástand hafa erlendir glæpamenn nýtt sér og tekist að svíkja hundruð þúsunda króna út úr fólki sem sé í leit að húsnæði.
Pjattið hafði samband við Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur hdl. hjá Fasteignamál Lögmannsstofu.
Hún segir lang öruggast, bæði fyrir leigjendur og leigusala, að láta leigumiðlun hafa milligöngu um útleigu á leiguhúsnæði en eins og sjá má á þessari frétt rignir fyrirspurnum leigusala yfir þá sem gæta réttinda í þessum málum.
Ástæðuna fyrir skorti á leiguhúsnæði segir Guðfinna að megi meðal annars rekja til þess að nú fái túristarnir það húsnæði sem áður hefði verið leigt út til íslendinga en auðvelt er að leigja íbúðir í skemmri tíma til ferðamanna gegnum sérstaka miðlunarvefi:
“Íbúðalánasjóður á líka fullt af íbúðum sem er ekki verið að leigja út og svo er fleira sem spilar inn í en auðvitað er alltaf fólk sem kýs frekar að sleppa við umstangið sem fylgir því að leigja túristum og reynir að finna góða leigjendur. Vandinn er bara sá að íbúðareigendur eru að leigja sjálfir í gegnum t.d. Bland og Facebook en svo er endalaust verið að lenda í vandræðum af því fólk kann ekki nógu góð skil á reglunum,” segir Guðfinna.
Þekkja ekki réttindi eða skyldur
“Bæði leigjendur og leigusalar þekkja oft ekki rétt sinn og skyldur þegar kemur að húsnæðinu. Til dæmis hver munurinn er á tímabundnum og ótímabundnum leigusamningnum, hver munurinn er á riftun og uppsögn, hvernig á að bregðast við þegar leigjandi greiðir ekki, hvaða tryggingar er öruggast að biðja um í upphafi o.s.frv,” segir Guðfinna.
“Leigumiðlari ber til dæmis ábyrgð á því að leigusamningur sé gerður í samræmi við húsaleigulögin og honum ber skylda til að upplýsa aðila leigusamnings, þ.e. leigjanda og leigusala, um þau réttindi og þær skyldur sem þeir taka á sig með undirritun leigusamnings. Mikilvægt er að aðilum leigusamnings um íbúðar- eða atvinnuhúsnæði sé ljóst hvaða reglur gilda við gerð leigusamnings, framkvæmd hans og lok,” segir hún og bætir við að þegar um íbúðarhúsnæði sé að ræða geti aðilar slíks samnings samið um ákveðin atriði sín á milli en önnur ekki.
“Aðilar að leigusamningi um atvinnuhúsnæði hafa hins vegar frjálsari hendur. Samkvæmt húsaleigulögunum gilda ákveðnar reglur um það hvernig aðilar húsaleigusamnings eiga að bera sig að við að koma athugasemdum og kröfum á framfæri. Gæti menn ekki þeirra formskilyrða sem húsaleigulögin kveða á um, t.d. varðandi tímafresti og aðferðir, geta þeir glatað rétti sínum. Þannig þarf t.d. leigjandi sem ætlar að bera fyrir sig að ástandi leiguhúsnæðis sé ábótavant að gera það innan ákveðins tíma annars glatar hann þeim rétti. Einnig þarf leigusali að lýsa bótakröfu á hendur leigjanda innan ákveðins tíma. Þar sem margs er að huga að við gerð, framkvæmd og lok leigusamnings er mikilvægt að vel sé vandað til verka bæði í upphafi og síðar,” segir Guðfinna að lokum.
Það er því greinilega betra að sleppa Facebook og Bland og reyna heldur að hafa leigumiðlara sem milligönguaðila um gerð slíkra samninga, ef þú vilt vera viss um að halda íbúðinni lengur en í hálft ár eða hafa hana í góðu standi sértu leigusalinn.
Nokkrar leigumiðlanir eru starfandi á landinu í dag. Eins og flestir vita er leiguverð í borginni nokkuð hátt, eða í raun orðið sambærilegt því sem tíðast víðast hvar erlendis. Til dæmis færðu ekki 40 fermetra íbúð á besta stað á Manhattan undir 250.000 kr á mánuði og það er meira að segja erfitt að finna slíkt húsnæði. Flestar höfuðborgir á vesturlöndum eru svipaðar þegar kemur að þessu en miðað við það sem tíðkast víðast hvar erlendis hafa Íslendingar alltaf lagt óvenjulega mikla áherslu á að fólk eignist sitt “eigið” húsnæði. Líklegast vegna þess hversu auðvelt hefur verið að fá bankalán en þetta hefur líka lengi verið partur af menningunni.
Sértu með eign til útleigu sem þarf að koma á framfæri eða ert að leita að leighúsnæði getum við bent á Húsaleiga.is en þiggjum fleiri ábendingar á Facebook síðunni okkar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.