Stella Björt Bergmann, pjattrófa til þriggja ára, stílisti og aðstoðar verslunarstýra í Top Shop vissi ekki hvert hún ætlaði þegar hún sá allt í einu mynd af sjálfum Kanye West í bol með mynd af vinkonu hennar sem hún hafði sjálf stíliserað fyrir tveimur árum.
Myndaþáttinn kallaði hún Nornir í Kirkjugarði og birti hér á Pjatt.is í janúar 2011 en það er Katrín Braga sem tók myndina og Bryndís Reynis sem situr fyrir en aðrar fyrirsætur í þessum myndaþætti eru Brynja Jónbjarnardóttir og Kolfinna Kristófers sem var þá að stíga sín fyrstu skref í fyrirsætubransanum.
Myndaþátturinn sló greinilega í gegn því myndinni hefur á síðustu tveimur árum verið dreift víða um netið og að lokum hafnaði hún á bringunni á sjálfum Kanye West.
“Virgil Abloh er stílistinn sem starfar fyrir Kanye West en það er hann sem er að nota þessa mynd sem sína stíliseringu fyrir merkið Pyrex,” segir Stella.
“Staðreyndin er sú að það er mín stílisering sem liggur á bak við þetta. Þetta er náttúrulega alveg óþolandi. Hann var með þessa mynd sem prófílmyndina sína á Twitter heillengi en hún hafði þá verið vinsæl í tvö ár á tískubloggum og Tumblr síðum. Hún hefur þá bara farið héðan af Pjattrófunum og út á netið.”
Spurð að því hvort þær vinkonurnar ætli ekki að leita réttar síns segir Stella að Katrín ljósmyndari eigi allan rétt af ljósmyndinni og ætti því að fá greitt fyrir þetta eðli málsins samkvæmt en bolirnir eru nú seldir á 85 dollara og eru geysivinsælir.
“Bolirnir eru ófáanlegir eins og er en það er hægt að gera eitthvað pre-order á þá á netinu. Sjálf væri ég bara til í að fá kredit fyrir mína vinnu,” segir Stella að lokum en þú getur skoðað fleiri tískuþætti frá Stellu á linkunum hér fyrir neðan:
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.