Íslenski spurningaleikurinn QuizUp lenti í öðru sæti í flokknum “hástökkvari sprotafyrirtækja” (e. Fastest rising startup), á Crunchies-verðlaunahátíðinni sem fram fór í San Francisco í gær.
Óhætt er að segja að árangur QuizUp sé gríðarlega góður miðað við að leikurinn var ekki gefinn út fyrr en 7. nóvember og var því aðeins fáanlegur í 54 daga á síðasta ári.
Það var vefsíðan Upworthy sem bar sigur úr býtum í flokknum en aðrir tilnefndir voru Lulu, Tinder og Whisper.
Upworthy er vefsíða sem miðar að því að koma mikilvægum boðskap á framfæri og fá fólk til að dreifa honum á netinu og samfélagsmiðlum.
Alls var keppt í 20 flokkum og meðal annarra sigurvegara má nefna Bitcoin (besta tækniafrekið), SnapChat (besta farsímaforritið), Tinder (besta nýja sprotafyrirtækið 2013) og Kickstarter (besta sprotafyrirtækið 2013) auk þess sem Dick Costolo, forstjóri Twitter, var valinn forstjóri ársins.
Þetta var í sjöunda sinn sem Crunchies-verðlaunin voru veitt en það er tæknivefsíðan Tech Crunch sem stendur fyrir þeim í samstarfi við fréttavefsíðurnar GigaOm og VentureBeat sem fjalla um tækni- og frumkvöðlageirann.
Kynnir á verðlaunahátíðinni var John Oliver, leikarinn og grínistinn góðkunni sem Íslendingar þekkja úr þáttum eins og The Daily Show og Community.
Til hamingju Ísland! Til hamingju Plain Vanilla!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.