Á morgun, fimmtudaginn 6 desember, klukkan 19:00 verður haldin ljósmyndasýning á Nauthól en þar sýnir Óli Haukur Mýrdal magnaðar ljósmyndir sem hann tók af ættbálkum sem búa í OMO dal í Eþíópíu.
Um er að ræða einstakan viðburð þar sem sýningin verður aðeins í boði á morgun en sýndar verða myndir frá lífi fjögurra ættbálka sem byggja suður OMO dal í vesturhluta Eþíópíu. Þetta er einstök sýning sem aðeins verður í boði þennan eina dag og því um að gera fyrir allt áhugafólk um lífstíl og ljósmyndun að drífa sig á Nauthól.
Pjatt.is kom að máli við Óla og við spurðum hann aðeins út í þessa sýningu og hvað það var sem dró hann og hans menn alla leið frá Keflavík inn í dali Afríku.
“Það hefur alltaf verið langþráður draumur minn að komast í kynni við frumbyggja og fá að upplifa hvernig er að stand á eigin fótum í frumskógum Afríku,” segir Óli.
“Það var svo nú í sumar sem ég tók ákvörðun að fara út um leið og tækifærið mundi gefast. Ég fann smá glufu í dagatalinu hjá mér þar sem ég gat leyft mér að skreppa út í tvær vikur til að mynda, hefði þó viljað vera lengur. Með hjálp lonlyplanet.com og Facebook fann ég virkilega góðan leiðsögumann sem kom okkur í samband við ættbálkanna og eftir langt ferðalag og nokkrar millilendingar tók við tveggja daga keyrsla frá Addis Ababa höfuðborg Eþíópíu niður í OMO dalinn.”
Frábært að sýna þeim myndir frá Íslandi
Í vesturhluta Eþíópíu, nánar tiltekið í suður OMO dal búa átta tegundir ættbálka eða um 200.000 manns. Óli og félagar heimsóttu fjóra þeirra þar sem þeir tóku virkan þátt í þeirra daglegu rútínu. Gistu í þorpunum með þeim, annaðhvort undir berum himni eða í strákofum.
“Eitt af því sem kom mér verulega á óvart var hversu næm nætursjónin þeirra er því þeir kveikja ekki bál á kvöldin nema til að eldunnar. Við sýndum þeim myndir frá íslandi og það var ótrúlegt að sjá viðbrögðin þegar við tókum upp iPadinn og byrjuðum að sýna þeim video og myndir. Það var frábært alveg!”
Fólk sýnir hvort öðru virðingu
Lífið í OMO dal snýst um búfénað og ræktun á korni. Þar er mikið um geitur og kýr sem eru þeirra verðmæti. Vöruskipti eru líka mjög algeng og ganga ættbálkarnir tugi kílómetra á markaði einu sinni til tvisvar í mánuði þar sem þeir geta skipst á nauðsynjavörum líkt og sápu, korni, skóm, fræjum o.fl. Það má segja að líf þeirra sé mjög einfalt en samt ótrúlega næjusamt og lífsgleðin mikil þrátt fyrir fátækt. Okkur var alltaf afar vel tekið og sýnd mikil virðing. Það er mikilvægsta í mannlegum samskiptum er virðingin. Við tókum aldrei upp myndavél og byrjuðum að mynda án þess að fá leyfi frá fólkinu og fyrir það uppskárum við enn meiri virðingu.
Leggja á sig blóðugt ofbeldi fyrir syni sína
Óli Haukur er sannarlega reynslunni ríkari eftir ferðalagið en það sem kom honum mest á óvart voru hvernig konur fórnuðu sér í svokallaðri Nautastökks atöfn eða “Bulljump ceremony” og létu blóðugt ofbeldi yfir sig ganga með svipuhöggum.
“Þar koma fjölskyldur saman til að horfa á strákanna sína gangast undir manndómspróf. Prófið gengur út á að þeir hoppa yfir 5-10 valdar beljur sem er raðað upp í beina röð og svo á að stökkva yfir fimm sinnum í röð. Ef stráknum mistekst þá fær hann ekki að kvænast og skömm mun hvíla á honum og fjölskyldunni það sem eftir er. Á meðan strákurinn hoppar yfir kýrnar þá sýna ættmenni hans stuðning en það eru eingöngu konurnar sem láta hýða sig með svipuhöggum á bakið þar til bakið er orðið afmyndað af blóði og afleiðingin er sú að þær fá gríðastór ör yfir allt bakið.”
Hefur flakkað um heimsins höf
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Óli Haukur ferðast yfir heimsins höf til að taka myndir en árið 2009 fór hann til dæmis til Indlands þar sem hann kynnti sér forna menningu í borginni Varanasi.
“Svo hef ég farið með með góðum félaga til Kyrgyzstan og Rússlands, Kína, Grænlands og á marga skemmtilega framandi staði. Stefnan er svo tekin í frumskóga Papa Nýju Gíneu einhverntímann í náinni framtíð þar sem ég mun hitta fleiri ættbálka.
Eins og fyrr segir er frumsýning á Kaffi Nauthól í Nauthólsvíkinni á morgun, fimmtudag kl 19:00 og verður aðeins þetta eina kvöld. Hér má fylgjast með myndum Óla á Instagram en hér fyrir neðan er myndband af því sem fyrir augu þeirra bar í Afríku.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.