Það hlaut að koma að því fyrr eða síðar en nú hefur ein af mennsku Barbídúkkunum, sem við sögðum frá hér á Pjattinu um miðjan september, slegið í gegn í tískuheiminum.
Valeria Lukyanova er elsta dúkkan af þessum frægustu en hún er hreinlega í laginu eins og Barbí og andlitið er eins á manga karakter úr japönskum teiknimyndum. Nú hefur V – Magazine tekið hana upp á sína arma en daman situr fyrir í ‘áhugaverðum’ tískuþætti í síðasta hefti.
Þar er hún jafnframt í áhugaverðu viðtali en óhætt er að segja að lífsskoðanir Valeriu séu álíka framandi og útlit hennar.
Daman segist vera kennari í “skólanum sem sérhæfir sig í ferðalögum út úr líkamanum” en daglegt líf hennar gengur að mestu út á tvennt – netið og útlitið.
Spurð að því hvernig venjulegur dagur í lífi hennar sé segist hún byrja á að “vinna í andlitinu”, svo fer hún í nudd, þá á netið, svo hugleiðir hún og ferðast í astral-líkamanum sínum um óravíddir kosmosins og þegar það er búið þá fer hún í ræktina. Því næst í göngutúr með bestu vinkonu sinni, svo fer hún heim að elda fyrir manninn sinn. Aftur á netið, svo er hugleitt og þegar sólin sest fer dúkkan í háttinn.
Erfitt líf?
Valeria segist ferðast mikið og það sem komi kannski mest á óvart við hana sé að hún er ákafur klettaklifrari. Hún segist eyða löngum tíma frá mannabyggðum enda hefur hún verið með netta nefið sitt á kafi í andlegu lífi og nýaldarstarfi frá blautu barnsbeini.
Hér má sjá myndir úr tískuþættinum en Valeria klæðist meðal annars fötum frá Mikael Kors, Ralph Lauren, Patriciu Field og er með fylgihluti frá m.a. Rolex og Dior.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.