Hönnun nýs 10 þúsund króna seðils er lokið og verður hann settur í umferð á þessu ári.
Þetta staðfestir Már Guðmundsson Seðlabankastjóri í samtali við Ruv.is og segir seðilinn væntanlegan til landsins í vor, um svipað leyti og lóan.
Myndlistakonan Kristín Þorkelsdóttir sá um hönnun seðilsins en hún hefur séð um hönnun íslenskra peningaseðla frá árinu 1981.
Á seðlinum verður mynd af skáldinu og náttúrufræðingnum Jónasi Hallgrímssyni og lóunni blessaðri sem hefur glatt okkur á vorin öldum saman.
Nýi seðillinn er búin fleiri öryggisþáttum en þeir sem á undan hafa komið en Már hefur sagt að verðlagsþróun og aukið magn seðla í umferð væri tilefni nýja 10.000 króna seðilsins.
Svo er bara að vona að fleiri fari að venja sig á að nota seðla en ekki kort þegar svona fínn peningur kemst í umferð en það mun vera einn þeirra þátta sem stuðla að meiri ábyrgð í persónulegum fjármálum fólks.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.