Frá því að Sigurður Þór Helgason fór af stað með fyrirtæki sitt iStore.is hefur hann verið duglegur að styrkja fötluð börn með því að gefa þeim iPad en 1000 krónur af hverju seldu tæki í búðinni renna í styrktarsjóð iBarna.
Nú í desember gaf Sigurður fjögur iPad tæki en það hefur sýnt sig og sannað að spjaldtölvurnar vinsælu auka lífsgæði barnanna og fjölskyldna þeirra til muna.
Eins og fyrr segir fóru fjórar spjaldtölvur til fatlaðra barna í desember en þá fékk sautjánda barnið sinn iPad. Það var hún Júlía Rakel Baldursdóttir en hún er með spastíska fjórlömun (CP) og dæmigerða einhverfu. Auk þess er hún sjónskert og notast við litaspjöld og stækkað letur þegar hún les. Júlía Rakel er í Langholtsskóla og reynir allt hvað hún getur til að fylgja jafnöldrum sínum eftir í námi, en fötlun hennar er henni þar þrándur í götu. Það er einnig sannarlega til bóta að geta haft eigin iPad sem hún gæti hlaðið niður námsefni og verkefnum í. Það er mjög líklegt að gjöfin muni koma henni vel að notum og auka lífsgæði hennar til muna, en hún er 13 ára gömul og er hún því elsta iBarnið.
KRAFTAVERK MEÐ IPAD
Átjándi iPadinn verður gefinn í nú í janúar en Sigurður segir reynsluna af þessu í einu orði sagt frábæra.
“Ég fæ oft heimsóknir frá foreldrum barnanna og stundum er ég svo heppin að þau koma með líka. Foreldrarnir þakka fyrir sig og tala um hvernig þetta hefur hjálpað börnunum. T.d. hefur barn sem var alltaf með kreppta hnefa rétt úr fingrunum og er farið að hreyfa þá,” segir Sigurður kátur og bætir við að annað barn hafi skyndilega byrjað að tjá sig eftir að hafa fengið iPad.
“Barnið gat allt í einu sagt já og nei með því að nota iPadinn. Var tæplega tveggja ára þegar hann fékk iPaddinn en um níu mánuðum síðar gat hann tjáð sig með því að nota tækið. Fyrst kom enginn árangur en svo kom í ljós að það var hugsun á bak við hreyfinguna.”
ÞÓRHILDUR NÓTT
“Fyrsta barnið sem fékk iPad var Þórhildur Nótt. Hún var alveg lömuð og gat ekkert haft áhrif á umhverfi sitt. Búið var að reyna sitthvað til að örva hreyfingar en hún sýndi engin viðbrögð en þegar hún fékk iPadinn þá liðu ekki nema fimm mínútur þar til hún var farin að fletta bók og leika sér með þessa örlitlu hreyfingu sem hún hafði í fingrunum!” segir Sigurður og bætir við að sex mánuðum síðar hafi hún byrjað að keyra hjólastól.
“Þórhildur Nótt var tæplega þriggja ára þegar hún fékk iPaddinn og var með alveg lamaðan líkama en fullskýran koll. Þórhildur lifði þó ekki nema til tæplega fjögurra ára en það gaf mér mikið að geta hjálpað henni og foreldrum hennar,” segir hann en eins og áður segir var það sautjánda barnið sem fékk sinn iPad í desember.
ÓSKAR EFTIR ÁBENDINGUM
Og fallegu sögurnar eru fleiri. Fjölfatlaður drengur að nafni Ásgeir vildi ekki sjá sinn iPad í tvo mánuði. Hann hafði aldrei viljað leika sér með neitt, bara skoða bílamyndir og horfa á Stubbana.
“Eftir tvo mánuði notaði hann iPaddinn til að tjá sig og það var í fyrsta skipti. Gat sagt að hann vildi drekka og borða og hvað hann langaði í. Strákurinn er sex ára núna,” segir Sigurður að lokum.
Athugið að iStore og styrktarsjóður iBarna óskar eftir ábendingum á vefpóstinn iborn@istore.is en athugið að 1000 krónur af hverju seldu tæki fer í að gefa þessar gjafir og þá gildir einu hvort þú kaupir iPhone, iPad, iPod, tölvu eða annað sem selt er í iStore. Við hvetjum þig líka til að fylgjast með iStore á Facebook en þar færðu fréttir af börnunum.
Við óskum Sigurði og iStore í Kringlunni til hamingju með þetta frábæra framtak!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.