Á MORGUN – SUNNUDAGINN 14. október fer fram einstök upplifun í Norræna húsinu þar sem áhugasömum gefst tækifæri á að kynnst framboði á íslenskri lífrænt vottaðri vöru og þjónustu, bæði snyrtivörum, grænmeti, brauðmeti og fl.
Hægt verður að bæði smakka og skoða!
Viðburðurinn er svar við aukinni eftirspurn og áhuga neytenda eftir íslenskum lífrænt vottuðum vörum en tilgangurinn er að fræða neytendur. PJATT.is kom að máli við Svölu Georgsdóttur sem fræddi okkur um daginn en Svala er “bona fied “lífrænn neytandi með meiru.
HVAÐ ER LÍFRÆN VOTTUN?
“Lífrænt vottaðar vörur hafa gengið í gegnum langt og strangt þróunarferli í samstarfi við vottunarstofu til að öðlast merkinguna “lífrænt”. Það inniber að eiturefni, eins og kemískur áburður eða skordýraeitur eru nánast útilokuð í framleiðslunni. Grænmetið vex upp úr mold til dæmis en ekki vatnsbaði. Erfðabreytt fræ og erfðabreytt fóður handa dýrum er útilokað í lífrænni framleiðslu. Grunnþörfum dýra er einnig fullnægt með td. lágmarks útiveru og nægu rými. Þau fá heilnæmt fóður að borða, grasbítar fá gras en ekki korn og pensilínnotkun er í lágmarki,” útskýrir Svala.
DÝRANÍÐ Á HÆNSNUM OG SVÍNUM
“Að velja lífrænt snýst því ekki bara um lokaafurðina sem maður kaupir úti í búð heldur snýst þetta líka um að vilja stuðla að meiri sjálfbærri framleiðslu, minni mengun og heilnæmari landbúnaði þar sem tekið er sérstakt tillit þarfir dýra! Verksmiðjubúskapur hjá kjúklingum og svínum á Íslandi er til dæmis algjört dýraníð í mínum augum. Það vantar alveg lífrænt vottaðan kjúkling og svínakjöt á Íslandi eins og staðan er í dag.”
Það er eitthvað við það að sjá plöntu verða til úr pínulitlu fræi, bara með smá mold og vatni.
AUKIÐ FRAMBOÐ SVARAR EFTIRSPURN
Svala fagnar því hversu mikið framboðið af lífrænum mat hefur aukist síðustu ár.
“Í dag erum við svo heppin að geta keypt lífrænt bæði í lágvöruverslunum eins og Bónus og Krónunni, en í sérhæfðum verslunum eins og Maður Lifandi og Heilsa ehf. Sjálf er ég námsmaður með fjögurra manna fjölskyldu og ekki með neitt sérstaklega mikið á milli handanna en ég forgangsraða þannig að geta keypt frekar lífrænt vottað því það skiptir mig svo miklu máli,” segir Svala.
“Það geri ég með því að hafna einhverju öðru, til dæmis borðum við afar sjaldan úti, kaupum lítið af gosi eða öðru sem er ekki nauðsynlegt. Þegar á botninn er hvolft munar ekki svo miklu í rauninni, ég hugsa að ég sé að borga kannski rétt rúmar 2000 kr meira á mánuði í matarútgjöld fyrir lífrænu vörurnar mínar og það finnst mér ansi góð fjárfesting, en ég kaupi ekki heldur ALLT lífrænt, maður lærir að sigta þetta aðeins út með tímanum.”
ENGINN DÓSAMATUR
“Í fyrsta lagi þá er ég er hætt að kaupa dósamat, ss. kókosmjólk og tómata, sveppi og baunir og þess háttar í dós og kaupi frekar pakkningar í gleri eða pappa til að forðast kemískar leyfar úr dósunum. Ég reyni að kaupa alla grunna lífræna í sósur og forðast pakkasósur. Eitthvað sem ég er alveg hætt að kaupa í dag er maís og tofu eða sojavörur sem eru ekki lífrænt vottaðar því þær eru langflestar erfðabreyttar í dag og áhrifin af erfðabreyttum afurðum eru mjög umdeild. Íslenskt grænmeti finnst mér heilnæmt, því fylgir minni mengun heldur en það sem er innflutt. Mér finnst líka gott að styðja íslenska bændur og efla þannig hagkerfið okkar hérna heima. Ég kaupi alltaf lífrænt vottað spelt, baunir, grjón, morgunkorn, olíur, pasta og tómatsósu, gæti lengi talið upp. Mér finnst þetta allt jafn mikilvægt,”segir Svala sem hefur einnig ræktað matinn heima hjá sér og segir það mjög gefandi iðju.
“Það er eitthvað við það að sjá plöntu verða til úr pínulitlu fræi, bara með smá mold og vatni. Eigið ræktað grænmeti bragðast líka betur! Lofa! Það geta allir ræktað heima hjá sér, annað hvort úti í garði, á svölum eða bara í eldhúsglugganum. Við verðum einmitt með fyrirlestra um “Urban gardening” á viðburðinum okkar í Norræna Húsinu 14. okt. og auðvitað vonumst við til að sjá sem flesta,” segir Svala að lokum en auðvitað ætlum við heilsuóðu Pjattrófurnar að mæta í Norræna Húsið til að kynnast þessu nánar.
Sjáumst!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.