Á morgun stendur Kraftlyftingadeild Gróttu sem stofnuð var í árslok 2011 fyrir sínu fyrsta stóra opna móti sem er Íslandsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum.
Mótið verður haldið í íþróttahúsi Seltjarnarness og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem keppt verður í klassískum kraftlyftingum hér á landi en þær eru með aðeins öðru sniði en hefðbundnar kraftlyftingar. Í klassískum kraftlyftingum er keppt „á kjötinu“ eins og það er kallað þegar keppt er án alls aukabúnaðar þ.e. án sérstakra bróka og bola sem gefa aukinn styrk.
Eins og margir vita þá hefur áhugi á kraftlyftingum aukist til mikilla muna hér á landi sem og annars staðar á undanförnum árum. Áhugi á klassískum kraftlyftingum hefur einnig farið vaxandi en um er að ræða mjög góða þjálfun sem hentar fólki á öllum aldri enda hefur fjöldi kvenna sem stundar íþróttina aukist til mikilla muna á síðustu misserum.
Með markvissum og rétt framkvæmdum æfingum er hægt að byggja upp alhliða vöðvastyrk, snerpu, þrek og andlegan styrk sem allt hefur áhrif á stoðkerfi líkamans. Í keppni reynir auk þess á tækni, taktík og kjark en keppnisgreinarnar í klassískum kraftlyftingum eru þrjár eins og venja er, hnébeygja, bekkpressa og réttstöðulyfta.
Grótta hafði frumkvæði að því að mót af þessu tagi yrði tekið inn i mótaskrá Kraft sem er innan ÍSÍ og fer í einu og öllu eftir þeirra lögum og fagnar sívaxandi vinsældum hennar. Kraftlyftingadeild Gróttu hefur mikinn metnað fyrir því að hefja veg þessarar íþróttagreinar sem hæst og leggur ávallt sérstaka áherslu á heilbrigði og hollt mataræði iðkenda.
Það verður án efa mikill kraftur og gleði á Seltjarnarnesinu laugardaginn 11. maí því einstaklega mikið er lagt í umgjörð og framkvæmd þessa fyrsta Íslandsmeistaramóts í klassískum kraftlyftingum. Um fimmtíu þátttakendur hafa skráð sig til leiks sem er metþátttaka í kraflyftingamóti á Íslandi og búist við stórkostlegri stemningu meðal keppenda og stuðningsmanna þeirra. Keppt verður í öllum þyngdarflokkum bæði í konu og karlaflokki og veitt verðlaun fyrir hvern þyngdarflokk auk þess sem veitt verða sérgreinaverðlaun það er Íslandsmeistari hnébeygju, bekkpressu og réttstöðu. Ennfremur verða veitt verðlaun fyrir stigahæstu konu, karl og lið mótsins.
Það er engin önnur en bæjarlistamaður Seltjarnarness, Sigga Heimis hönnuður sem sérhannar verðlaunagripina og verða þeir farandbikarar sem munu fylgja klassískum kraftlyftingum næstu árin. Bikararnir eru gjöf Kraftlyftingadeildar Gróttu til Kraftlyftingasambands Íslands.
Nánari upplýsingar má finna á www.grottasport.is eða hjá www.kraft.is
Nokkrar ótrúlega skemmtilegar staðreyndir um keppnina !
- Fyrsta mót sinnar tegundar á Íslandi
- Fjölmennasta kraftlyftingamót sem haldið hefur verið á Íslandi
- Yngsti keppandinn er 15 ára (strákur) sá elsti 48 ára (kona)
- 1/3 keppenda keppir á sínu fyrsta kraftlyftingamóti – áskorun fyrir alla!
- Nærri helmingur keppenda ERU KONUR – Jafnrétti hvað?
- Langstærsti hluti keppenda er í léttum þyngdarflokkum … það er nefnilega hægt að vera léttur & sterkur J
- Áberandi margar konur (6 af 22) í öldungaflokki … og gætu auðveldlega flokkast undir það að vera „fínar frúr á Nesinu“ … eða fullorðnar framakonur með fjölmörg börn!
- Íslandsmeistarinn í Kraftlyftingum 2012 keppir … í fyrsta sinn á kjötinu – hvernig mun honum ganga án búningsins!!!
- Hvernig mun öllum hinum ganga án búnings? … Nei gleymdu því – það verður enginn nakinn … allir í keppnisfötum bara ekki „brók & bol“
- Stæltir og stoltir stuðningsmenn keppenda eru búnir að vera í stífri stuðningsmannaþjálfun hjá Stuðmönnum síðan í september – STEMNINGIN VERÐUR GRJÓTHÖRÐ & GRÍÐARLEG – Gjörsamlega allir velkomnir
- Yfirlit yfir keppendur & þyngdarflokka má finna á heimasíðu Krafts
Mótið hefst stundvíslega kl. 10.00 og eru allir hvattir til að mæta snemma og taka daginn frá svo þeir missi ekki af neinu. Verðlaunaafhending verður strax að keppni lokinni á laugardaginn.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.