Haldið verður upp á þjóðhátíðardaginn á Seltjarnarnesi með fjölbreyttum hætti víða um bæinn.
Hápunktur hátíðarhaldanna verður í Bakkagarði við Suðurströnd þar sem þjóðþekktir einstaklingar stíga á svið með Kenneth Mána í broddi fylkingar.
Bátasigling fyrir börnin
Dagskráin hefst kl. 10 að morgni þjóðhátíðardagsins en þá býður Siglingafélagið Sigurfari og Björgunarsveitin Ársæll börnum upp á bátsferðir frá smábátahöfninni við Bakkavör. Börn verða að vera í fylgd með fullorðnum en siglingar eru þó háðar veðri og vindum.
Guðsþjónusta
Kl. 11 verður guðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju þar sem Sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónar fyrir altari. Organisti er Friðrik Vignir Stefánsson. Gunnar Kvaran leikur á selló og Elísabet Waage á hörpu. Guðmundur Snorrason flytur hugleiðingu, en félagar í Rótarýklúbbi Seltjarnarness taka þátt í guðsþjónustunni. Nýstúdentar eru sérstaklega boðnir velkomnir. Kaffihlaðborð að athöfn lokinni.
Skrúðganga frá Mýró
Lúðrasveit Tónlistarskóla Seltjarnarness leiðir skrúðgöngu sem hefst kl. 13 frá Mýrarhúsaskóla. Fánaberar fara í broddi fylkingar en trúðar og stultufólk sjá um að skemmta göngufólki. Gangan fer sem leið liggur að Valhúsaskóla og niður í Bakkagarð þar sem hátíðardagskráin hefst um kl. 13:15.
Kenneth Máni, Lína, Gunni og Felix, Jóhanna Ruth og fleiri í Bakkagarði
Þegar skrúðgangan er komin í Bakkagarð hefjast hátíðarhöldin þar formlega, en kynnir hátíðarinnar er enginn annar en Kenneth Máni, sem slegið hefur eftirminnilega í gegn. Formaður menningarnefndar, Katrín Pálsdóttir flytur hátíðarræðu og Fjallkonan ávarpar gesti.
Söngvarinn þjóðkunni, Jóhann Helgason, syngur Seltjarnarneslagið með kór undir stjórn Ingu Bjargar Stefánsdóttur.
Ameríska kraftakonan Mama Lou sýnir ævintýralegar aflraunir og söngvararnir í Meistara Jakob gleðja gesti með tónlist sinni.
Grallarinn Lína Langsokkur skemmtir með leik og söng og helsta vonarstjarna landsins, Jóhanna Ruth Luna Jose, sigurvegari Samfés 2015, fær hárin til að rísa með söng sínum.
Tónlistardúóið Ívar Þórir og Magnús Hafdal slógu eftirminnilega í gegn í Ísland got Talent og gefa ekkert eftir á sviðinu í Bakkagarði. Þá eru ónefndir hinir sívinsælu Gunni og Felix sem fara á kostum með vinsælum lögum, m.a. úr Bakaraofninum.
Vinsælustu leiktækin í Bakkagarði
Frítt verður í öll leiktæki í Bakkagarði en kappkostað hefur verið að vera með tæki sem höfða til allra aldurshópa.
Meðal þess sem er í boði eru vatnaboltarnir sem slegið hafa í gegn, loftboltar sem reyna á jafnvægið, risarennibraut fyrir hugrakka krakka, fljúgandi diskur fyrir yngstu gestina, andlitsmálun, trampólín og hestateymingar, auk þess sem trúðar og stultufólk skemmta gestum í garðinum.
Sölutjöld
Í garðinum verða sölutjöld þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvað varðar mat og drykk eða hefðbundið 17. júní dót.
Tímabundin lokun á Suðurströnd
Þar sem hátíðarhöldin teygja sig beggja vegna Suðurstrandar verður lokað fyrir alla bílaumferð, nema strætó, frá Steinavör að Bakkavör frá kl. 12:30-16:00.
_______________________________________________________
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.