Jónína Leódóttir, höfundar bókarinnar Við Jóhanna sem hlotið hefur frábærar viðtökur undanfarnar vikur, afhenti í dag bókasafni Samtakanna ‘78 ríflega 40 erlendar bækur úr safni sínu.
Um er að ræða skáldsögur á ensku sem Jónína sankaði að sér á fyrstu árum sambands hennar og Jóhönnu Sigurðardóttur en allar fjalla þær á einn eða annan hátt um samkynhneigð. Segir Jónína bækurnar hafa verið sér ákveðinn áttavita á þeim tíma þegar íslenskt samfélag bauð ekki upp á margar opinberlega samkynhneigðar fyrirmyndir.
Með bókagjöfinni vill Jónína láta bækurnar renna til blómlegs og sívaxandi bókasafns Samtakanna ‘78 en þar munu þær vonandi gagnast þeim sem áhuga hafa á að kynna sér skáldverk frá síðustu áratugum 20. aldar um og eftir samkynhneigðar konur.
Við Jóhanna er ein af mest seldu ævisögunum fyrir þessi jól en hún lýsir umrótatímum í lífi Jónínu og Jóhönnu, aðstæðum samkynhneigðra á Íslandi á seinni hluta 20. aldar og hvernig ástin sigraði að lokum. Það er alltaf sætt.
Til hamingju krakkar með nýju bækurnar!

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.