Innblástur.is er vefsíða þar sem fjallað er um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt og ævintýragjarnt fólk.
Ég fékk hugmyndina að síðunni eftir að hafa reglulega fundið mig á tímamótum þar sem ég þurfti að ákveða hvað mig langaði að gera við líf mitt og afreka næst.
Ég átti hins vegar við sama vandamálið að stríða í hvert sinn, – það er að mér fannst erfitt að finna upplýsingar um hvað væri í boði, sérstaklega ef mig langaði erlendis en átti kannski ekki mikið í sparibauknum.
Oftar en ekki hef ég nýtt mér að ræða við námsráðgjafa þegar ég var efins um hvað ég ætti að læra en eins hjálplegt og það er þá geta námsráðgjafar ekki aðstoðað mann við að ferðast um heiminn. Það geta ferðaskrifstofur að sjálfsögðu gert en vandamálið þar er að ráðgjafar þeirra vilja auðvitað selja þér sínar ferðir. Það sem mér fannst vanta var aðili sem hefði upplýsingar um alls konar sniðuga hluti sem hægt er að gera en átti ekki hagsmuna að gæta.
Þar sem að ég fann hvergi slíka aðstoð ákvað ég að setja hana á laggirnar sjálf en þannig varð Innblástur til. Innblástur býr yfir yfir upplýsingum um nám, atvinnu og ferðalög en ásamt samansafni af hugmyndum um hvað er í boði er þar einnig að finna pistla og viðtöl við áhugavert fólk.
Ég hef verið svo lánsöm að hafa látið þó nokkra af draumum mínum rætast undanfarin ár.
Ég hef dvalið í Barcelona þar sem ég stundaði málanám, lokið BA-námi og MA-námi við Háskóla Íslands, verið au-pair í Finnlandi, lokið MA-námi í útgáfu við Anglia Ruskin University í Cambridge, Englandi, og svo mætti lengi telja.
Ég vona að Innblástur geti að sama skapi nýst ungu fólki við að uppgötva hluti sem það vill afreka og hjálpað þeim við að framkvæma og láta drauma sína rætast.
Ef þú vilt benda mér á fólk sem hefur gert áhugaverða hluti sem tengjast viðfangsefnum síðunnar þá máttu gjarnan hafa samband við mig á innblastur@innblastur.is.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.