Föstudagar eru skemmtilegir dagar hjá Icelandair Reykjavík Natura Hótelinu en það er listahótel keðjunnar. Bæði eru herbergin í slíkum stíl, list í stigahúsinu og á veitingastöðum og svo eru listaviðburði á hverjum föstudegi kl. 17:00!
Í hverjum mánuði er valinn sérstakur hönnuður en í september eru það Rósa Design og Helga í Gullkúnst saman. Önnur er með textíl hönnun og hin skartgripi. Þær sýna vörur sínar og hönnun alla föstudaga í september á Reykjavík Natura kl. 17:00, en milli 17 og 19 er einmitt Happy Hour eða Gleðistund á veitingastaðnum Satt á Reykjavík Natura.
RÓSA
Rósa Design var stofnað árið 2003 af Rósu E.R. Helgadóttur sem hefur undanfarin ár getið sér gott orð fyrir frumlega og góða hönnun. Hún sækir innblástur í íslenska náttúru, landslagið og veðráttuna sem hún hefur tvinnað saman á sérstakan og nútímanlegan hátt.
Rósa útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 en hún stundaði einnig nám við Design Academy of Eindhoven í Hollandi, Myndlista- og handíðaskólann og Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hún hefur einnig sótt fjölda námskeiða s.s. við búningahönnun, pólýgrafíu, þrívíddar mótun og þæfingu.
Við hönnun sína notar Rósa mest efni á borð við ull, silki og bómull og kvenleiki og tímaleysi er ein af sérstöðu hönnunarinnar. Eldri flíkur eru endurnýttar í takt við umhverfisvernd og vistvænan lífsstíl og eykur endurnýtingin einnig sköpunargleði og frumleika. Fylgihlutirnir frá Rósa Design hafa vakið athygli fyrir sérstöðu þar sem hún tengir saman silfur og gúmmí á frumlegan hátt. Silfurnælurnar eru formaðar líkt og gúmmíteygjur og armbönd eru gerð úr blúndu og gúmmíi. Rósa annast sérhönnun allt frá efnisgerð til lokaútkomu fatnaðar og fylgihluta, í samráði við viðskiptavini. Mest eftirspurn hefur verið eftir sérhönnuðum kjólum og sjölum.
HELGA
Aðalsmerki Gullkúnstar Helgu er handunnið skart úr smiðju Helgu Jónsdóttur og Sveins Guðnasonar.
Þar er íslensku hrauni teflt saman við ræktaðar perlur, silfur, gull og steina. Þannig skapast sterkar aðstæður í litum, efnum og áferð og útkoman er glæsileg. –Helga Jónsdóttir, Sveinn Guðnason og aðrir gullsmiðir í versluninni hafa nýtt hraun og íslenska steina í miklum mæli og þannig lagt grunninn að miklum vinsældum þess konar skarts meðal erlendra ferðamanna og eru með þessa séríslensku nálgun sína í stöðugri mótun og þróun.
Er ekki upplagt fyrir vinkonurnar að mæla sér mót á Reykjavík Natura á föstudögum, fá sér kaffi eða léttvín á Happy Hour og virða fyrir sér fallega og áhugaverða hönnun og handverk um leið? Það má nú segja 😉
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.