Hönnunarmiðstöð í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands stendur fyrir fyrirlestraröð í Hafnarhúsi á veturna. Á fyrirlestrunum kynna innlendir og erlendir hönnuðir og arkitektar verkefnin sín en jafnframt eru tekin fyrir málefni líðandi stundar á sviðum hönnunar og arkitektúrs.
Fimmtudaginn 19. september ætla Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður og Magnea Einarsdóttir fatahönnuður að kynna verkefni sín. Þórunni og Magneu var á dögunum boðið að taka þátt í norrænni kynningardagskrá hönnuða sem haldin var í Berlín dagana 1.-3. september.
Þórunn Árnadóttir útskrifaðist úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2007 og lauk MA-námi í vöruhönnun frá Royal College of Arts í London árið 2011. Hún hefur starfað sjálfstætt sem vöruhönnuður síðustu ár og meðal annars getið sér gott orð fyrir verkin Sasa Clock, Pyro Pet og Berg.
Í hönnunartímaritinu Icon var Þórunni nýlega lýst sem einni af fimmtíu áhugaverðustu hönnuðum sinnar kynslóðar í heiminum.
Magnea Einarsdóttir útskrifaðist úr fatahönnun frá Central Saint Martins College of Arts and Design árið 2012, en lagði hún áherslu á prjón. Hún hefur einnig stundað nám í Parsons Paris School of Design. Í fyrra lenti Magnea í öðru sæti í fatahönnunarkeppninni Muuse x Vogue Young Talents fyrir útskriftarverkefni sitt sem var fatalína.
Í kjölfarið hefur Magnea hannað fatalínu í samstarfi við Muuse x sem hefur bæði verið sýnd á London Fashion Week og Copenhagen Fashion Week. Haust- og vetrarlína Magneu er væntanleg á íslenskan markað innan skamms.
Fyrirlesturinn hefst klukkan 20.00, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.