Glæpasagan Furðustrandir, eftir Arnald Indriðason, kom út í Frakklandi þann sjöunda febrúar síðastliðinn, í þýðingu Eric Boury.
Bókin stökk beint í fyrsta sæti glæpasagnalistans og í þriðja sæti heildarlistans. Furðustrandir er því mest keypta glæpasagan í Frakklandi og þriðja mest keypta bókin þar í landi!
“Höfundar á borð við Stieg Larsson, Henning Mankell og Jussi Adler-Olsen lúta í lægra haldi fyrir Arnaldi á listanum og ekki í fyrsta sinn því bækur Arnaldar hafa um árabil náð þeim einstæða árangri að landa fyrsta sætinu á listanum við útkomu. Þess má geta að önnur bók Arnaldar, Bettý, er einnig á topp- tíu-lista glæpasagnalistans,” segir í fréttatilkynningu frá útgefanda.
Dómar um Furðurstrandir hafa verið á eina lund. Gagnrýnendur lofa bókina í hástert og fagna því að Erlendur hafi „snúið aftur“. Sabrina Champenois hjá Libération er gagntekin af sögunni og segir:
„Þetta er snilldarverk, hreinn galdur. […] sjávardís í bókarformi sem heillar lesendur með segulmögnuðum tregasöng. ”
Í Furðuströndum er Erlendur á æskuslóðum sínum austanlands og fortíðin sækir á. Ekki aðeins atvik úr hans eigin lífi, heldur einnig önnur óleyst og óuppgerð mál.
Dagens Nyheter í Svíþjóð valdi Furðustrandir sem eina af bestu glæpasögunum sem út kom þar í landi árið 2012. Bókin var í fyrra ennfremur tilnefnd af Sænsku glæpasagnaakademíunni (Svenska Deckarakademin) sem besta erlenda glæpasaga ársins.
Þá tilnefndi Crimezone hana sem bestu glæpasöguna í Hollandi árið 2012.
Við óskum Arnaldi og útgefendum hans til hamingju með þennan flotta árangur!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.