Fyrirtækið Pink Iceland fékk í gær nýsköpunarverðlaun Samtaka Ferðaþjónustunnar en fyrirtækið býður upp á ferðir fyrir þá sem eru samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og transgender.
Verðlaunin fékk fyrirtækið fyrir að skipuleggja ferðir fyrir vel skilgreindan hóp og nýta áður óþekktar auðlindir íslenskrar ferðaþjónustu.
Afhendingin fór fram á Grand Hótel við hátíðlega athöfn í gær en Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lagði áherslu á það í ræðu sinni að nýsköpun væri nauðsynleg fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Í viðtali við Viðskiptablaðið talaði hann meðal annars um að ef burðarásum ferðaþjónustu á Íslandi í dag hefði verið lýst fyrir landanum fyrir 30 árum, eða í kringum 1980, þá hefðu nú fæstir trúað því. Ætli það sé ekki rétt hjá honum: “Hvalaskoðun og hommaferðir!” hefði amman hrópað 🙂
Ólafur sagði einnig að ferðaþjónustan snérist ekki eingöngu um fallega landið okkar heldur líka um fólkið og samkipti þess. Hann sagði þessi verðlaun væru merki um þá þróun.