Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu mikil þarfaþing brjóstahaldarar og annar nærfatnaður er hjá bágstöddum úti í hinum stóra heimi.
Við sleppum því oft að setja þetta með í endurvinnsluna eða til Rauða Krossins, einfaldlega af því við hugsum bara einfaldlega ekki út í það.
Núna stendur Rauði Kross Íslands fyrir alsherjar brjóstahaldarasöfnun í tengslum við Kvennahlaupið. Rauði Krossinn hvetur þannig konur sem taka þátt í hlaupinu til að gefa brjóstahaldara sem þær eru hættar að nota en þær Stella Sigurðardóttir, handboltakona ársins, og Soffía móðir hennar gáfu fyrstu brjóstahöldin í söfnunina í gær. Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið í 23. skiptið þann 16. júní á 90 stöðum hérlendis og 20 stöðum erlendis. ÍSÍ fagnar um þessar mundir 100 ára afmæli en slagorð Kvennahlaupsins í ár er Hreyfing til fyrirmyndar!
Söfnunin mun standa út júní en hægt verður að koma með fatnaðinn á söfnunarstöðvar Rauða krossins og í Sorpu en einnig verður tekið við brjóstahöldunum við rásmörk Kvennahlaupsins um allt land á hlaupadaginn.
„Íslendingar hafa alltaf verið mjög duglegir við að gefa fatnað til Rauða krossins. Yfirleitt eru fötin mjög vel með farin og sum hafa jafnvel aldrei verið notuð en þessi föt enda oft í verslun okkar hér á landi. Við viljum hins vegar með þessari söfnun vekja athygli á því að við tökum glöð við öllum fatnaði og í raun öllu efni, eins og gardínum og dúkum, sama hvert ástandið á þeim er. Þetta á einnig við um brjóstahöld og önnur nærföt“ segir Örn Ragnarsson hjá Rauða krossinum.
Pjattrófurnar skora auðvitað á allar stelpur og konur að taka þátt í þessari söfnun, taka til í undirfataskúffunni og keyra svo (eða hjóla) með afraksturinn í næsta gám eða til Rauða Krossins!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.