Alma Rut Lindudóttir hefur barist fyrir málefnum utangarðsfólks og kynnt sér vel þau úrræði sem eru í boði. Málefnið á hug hennar og hjarta enda var Loftur Gunnarsson, útigangsmaður og mikill öðlingsdrengur, vinur hennar.
Loftur lést fyrir aldur fram en Alma segir að hefði hann fengið betri þjónustu og meiri aðhlynningu hefði hann ekki þurft að deyja. Alma tekur þó fram að með því sé hún ekki að gera lítið úr því sem hefur verið gert.
“Í mínum augum á þetta fólk að fá sömu aðhlynningu og þjónustu og aðrir einstaklingar. Ég hef verið í samskiptum við einstaklinga sem hafa misst ættingja sína bæði fólk sem hefur orðið úti eða fólk sem hefur verið mjög veikt af völdum alkahólisma,” segir Alma sem
stendur nú fyrir vitundarvakningu um málaflokk utangarðsfólks og biðlar til borgaryfirvalda um bætta aðstöðu og betri úrræði.
“Úrræðin sem eru í boði eru misgóð og það sem ég hef talið nauðsynlegast að bæta og breyta er gistiskýlið, að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir að gistiskýlið er neyðarúrræði og er ekki ætlað sem heimili en tel ég samt nauðsynlegt að neyðarúrræði séu mannsæmandi, snyrtileg og bjóði upp á þá þjónustu sem þarf.”
Í fyrra var mönnum vísað 24 sinnum frá Gistiskýlinu í Þingholtsstræti þegar húsið var orðið fullt en bara í síðastliðnum aprílmánuði voru frávísanir 63 talsins og tæplega þrjátíu í janúarmánuði. Í áskorun Ölmu á Change.org kemur fram að á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafa komið upp 137 tilvik þar sem körlum hefur verið vísað frá neyðarskýli borgarinnar.
Það er 137 tilvikum of mikið!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.