Með semingi set ég á mig hjálminn, horfi á mig í speglinum og segi: ” Þú ert allt of mikil tútta fyrir þetta asnalega höfuðfat”. En svo man ég af hverju ég hef kosið að klessa hárgreiðsluna mína á hverjum morgni.
Það gerðist fyrir 19 árum síðan. Ég var 17 ára skagamær að skjótast frá vinkonu minni, sem bjó á Esjuvöllum 21 í botlangagötu, að Esjuvöllum 17 þar sem ég bjó í sömu botlangagötu.
Þeir sem er vel að sér í götuhönnun eru búnir að fatta að það er einungis eitt hús á milli. Það var einmitt fyrir framan þetta hús, Esjuvelli 19, sem keðjan fór af. Og þar sem ég var að hjóla standandi á þessum gamla DBS eðalfáki þá steyptist ég af honum við þetta keðjuóhapp og svo varð allt svart.
Það er skemmst frá því að segja að ég fannst í blóðpolli mínum í áður tilgreindri botlangagötu.
Þegar sjúkrabíllinn hafði komið mér á nærliggjandi sjúkrahús var ég farin að ranka við mér en mundi ekki neitt. Ég mundi ekki einu sinni hvað ég hét. Þetta ástand varaði að vísu ekki lengi en ég hét því að frammvegis mundi ég frekar hjóla allsber en hjálmlaus.
Ég lít því aftur í spegilinn og kvæsi “þú ert allt of mikil tútta meira segja með þennan hjálm “. Ég smelli höfuðdjásnið fast og þeysi af stað í vinnuna.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come