Frakkar hafa ekki farið varhluta af kreppunni frekar en Íslendingar og vilja í auknum mæli kaupa franskar vörur og viðhalda þjóðlegum gildum.
Hér á fróni er lopinn upp á pallborðinu en í Frakklandi er það látlausa alpahúfan “beret” sem aftur er komin í tísku. Það er líka mikil nostalgía í þessari tískubólu enda er hún ekki allskostar ný undir sólinni.
Húfan á rætur sínar að rekja til franskra byltingarsinna er þeir voru og hétu og varð síðan hálfgerður einkennisbúningur franskra bænda í suðvestur Frakklandi. Eins var þetta látlausa en fallega pottlok merki þeirra sem störfuðu með frönsku andspyrnuhreyfingunni í stríðinu. Þá tíðkaðist einmitt að snúa beret-inu til vinstri eða til hægri í takti við stjórnmálaskoðanir !
Ég ímynda mér að franskar konur hafi þá getað valið sér mannsefni í “réttum flokki” með því að taka út halla húfunnar á höfði sveinanna: “Ohhh.. sjálfstæðismaður… Úlalaaaa… sósíalisti!“
Það var hins vegar söngkonan Marelene Dietrich sem innleiddi beret-inn fyrir okkur konur. Dietrich þessi hneykslaði fólk með því að klæðast buxum eins og karlmaður og auðvitað smellti hún beret á kollinn á sér til að fullkomna heildarmyndina.
Í kjölfarið fóru franskar skvísur að apa eftir söngkonunni – úr varð algert æði.
Þessi litli beret er nefnilega sérstaklega klæðilegur og það skýrir vinsældirnar að hluta. Hann klæðir alla vel óháð kyni og aldri – auk þess sem hann fer ekki í manngreinarálit þar sem hann er svo ódýr að allir ættu að hafa efni á einu stykki. Litla, svarta alpahúfan er flottur fylgihlutur sem setur punktinn yfir i-ið!
Þótt franski beret-inn sé nú aftur “dottinn í tísku” á æðið þó langt í land með að ná fyrri vinsældum hjá karlmönnum. Ég man að minnsta kosti ekki eftir að hafa séð marga unga Frakka með beret þegar ég bjó í París – því miður því pottlokið er eiginlega dálítið sexí, hálf bóhemískt og herralegt enda stendur það í órofa böndum við karlmennsku og oft hernað.
Í dag eru franskar skvísur aftur á móti mun duglegri að tylla apparatinu á koll sér en karlarnir, enda undirstrikar beret-inn andlitsfallið sem og þjóðernið. Úr verður þessi eini sanni franski glamúr! Frönsku leikkonurnar Brigitte Bardot og Jeanne Moreau voru til dæmis mjög kynþokkafullar í ballerínuskóm, þröngum gallabuxum og með beret!
Fjöldamörg tískuhús í Parísarborg eru með beret-tískuna á hreinu. Útlendingar sem jafnan eru stærsti viðskiptavinahópurinn eru nefnilega æstir í allt sem er elegant, smart og franskt. Þess vegna er beret-inn borðliggjandi alltaf öðru hvoru til að rífa upp söluna.
Tískuhús Sonia Rykiel, Chanel og Armani smella oft litla pottlokinu á sýningardömurnar mest til að undirstrika fegurð þeirra og fatanna!
Ég átti einhvers staðar til einn beret þegar ég bjó í París, það væri auðvitað þjóðráð að draga hann aftur upp úr skúffunni og nota.Ef til vill skýrir það líka auknar vinsældir þessa litla tryllitækis á götum Parísar núna?
Í þessu árferði eru konur að gramsa eftir gömlu dóti inn í skáp til að spara sér búðarferðina.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.