Af hverju ekki að læra nýtt tungumál í byrjun árs 2010 ? Í gegnum tungumál annarar þjóðar opnast þér menning hennar; nýr heimur fullur af nýju fólki og spennandi tækifærum.
Kannski langar þig í nám erlendis, eða flytja út og vinna og þá er tilvalið að læra tungumál fyrirheitna landsins áður en lagt er í hann.
Vinkona mín gengur með þann draum í maganum að flytja til Parísar og búa þar í eitt ár, snapa sér vinnu á kaffihúsi til að hafa í sig og á og stúdera jafnframt frönskuna áfram í Sorbonne.
Hún skráði sig þess vegna á frönskunámskeið hjá Alliance Francaise í Reykjavík. Nú mætir hún þrisvar í viku í tíma hjá þeim og grúskar í frönskunni, klórar sér í höfðinu yfir því hvað hún er snúin. Engu að síður veitir námið henni ómælda ánægju, ekki síst vegna þess að henni finnst gaman að lesa frönsk ljóð, hlusta á franska tónlist og horfa á franskt bíó. Frönsk menning svo gjörólík öllum öðrum, algerlega einstök svipað og frönsk matargerðarlist -í því liggur einmitt aðdráttaraflið.
Þar sem Alliance býr svo vel að eiga fjölskrúðugt bókasafn, enn stærra safn af dvd, spólum og geisladiskum er vinkonan góða hreinlega „horfinn“ inn í nýjan heim. Það er einmitt franski tónlistarmaðurinn Charles TRENET sem á hug hennar og hjarta akkúrat núna. Hér syngur hann uppáhaldslagið hennar:
Lagið kemur einmitt fyrir í myndinni “The Diving Bell and the Butterfly” (sem er byggð á metsölubók ritstjóra franska Elle, Jean-Dominique Bauby).
Árið 1995 fékk Jean Dominique slag aðeins 43 ára gamall, allur líkami hans lamaðist að undanskildu vinstra auga hans. Hann notaði augað til að blikka og skrifa þannig ævisögu sína. Þar lýsti hann innri veröld sinni, þeirri erfiðu reynslu að vera lokaður inni í líkama sínum. Frábær mynd… eins og svo margt annað sem frá Frökkum kemur.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.