Þó oft sé talað um að til að slá í gegn þurfi maður að vera einstakur virðist það oft ekki raunin í Hollywood. Það eru nefnilega fleiri stjörnur en maður heldur sem eiga frægan tvífara.
Zooey Deschanel og Katy Perry
Það eru líklega allir búnir að ná því að Katy Perry og Zooey Deschanel eru frekar mikið líkar.
Zooey sjálf var ekki alveg á því að þær væru eins líkar og við hin teljum þær vera og árið 2009, þegar hún var enn bara að leika í indie-myndum og líkaði sviðsljósið ekki vel, lét hún hafa eftir sér að samanburðurinn væri oft pirrandi, enda fylgdi því áreiti þegar fólk út á götu og paparazzi ljósmyndarar teldu að hún væri Katy.
Eftir að Zooey byrjaði að leika í “New Girl” og hefur þurft að færa sig meira í sviðsljósið hefur hún þó látið hafa eftir sér að Katy sé mjög falleg og að sér þætti það vera hrós að fólk teldi þær vera líkar.
Daniel Radcliffe og Elijah Wood
Ég er ekki alveg að sjá að þessir tveir séu líkir þó þeim svipi vissulega til hvors annars… en kannski er það bara vegna þess að ég þekki fyrrverandi, verðandi eiginmann minn of vel í útliti en ég var aðeins of ástfangin af Elijah þegar hann var barnastjarna.
Þeim finnst samanburðurinn mjög fyndinn og skiptast oft á sögum um það þegar fólk hefur ruglast á þeim. Daniel hefur þó hlegið af því að fólk hafi strax byrjað að ruglast á þeim þegar fyrsta Harry Potter myndin kom út en þá var Daniel 13 ára og fólk hélt að Elijah, sem þá var 21 árs, væri hann.
Þeim er víst enn í dag reglulega ruglað saman og Daniel hefur meira að segja sagt frá því að honum hafi verið réttar myndir af Elijah á Harry Potter frumsýningum til að gefa eiginhandaráritanir en þá hefur hann skrifað: Ég er ekki Elijah Wood. Daniel Radcliffe.
Þegar Daniel hefur hitt Lord of the Rings aðdáendur hefur hann hins vegar nokkrum sinnum gefið eiginhandaráritanir sem Elijah því honum finnst svo leiðinlegt að valda spenntum aðdáendum vonbrigðum.
David Beckham, Liam Payne og Justin Timberlake
Það eru margar samsæriskenningar í gangi um að fyrir rúmum tuttugu árum hafi Justin Timberlake, konungur poppsins, og David Beckham, einn besti fótboltamaður í heimi…eða allavega einn sá fallegasti, ákveðið að sameina súperkrafta sína til að búa til ofurpoppstjörnu. Úr þeirra samstarfi varð Liam Payne til, betur þekktur sem 1/5 af strákahljómsveitinni One Direction sem hefur verið að gera allt vitlaust (ég er þar meðtalin) undanfarin fjögur ár.
Ég veit ekki alveg hvað er mikið til í þessu en mér finnst þetta allavega líklegri kenning en sú að Karen Payne og Geoff Payne séu raunverulegir foreldrar Liams, þau eru ekkert lík honum!
Nikolaj Coster-Waldau og Josh Holloway
Ég ætti kannski ekkert að vera að upplýsa fólk um eigin heimsku en lengi vel hélt ég að Saywer úr Lost léki í Game of Thrones!
Mér finnst ég alveg vera smááá vitlaus núna þar sem jú, vissulega svipar þeim til hvors annars. Báðir ljóshærðir, bláeygðir og grófir en myndarlegir en samt er alveg vel hægt að sjá að þetta er sitthvor leikarinn.
Ég held ég verði bara að afsaka mig með því að þegar ég byrjaði að horfa á Game of Thrones voru liðin alveg nokkur ár síðan ég hafði horft á Lost.
Lucy Hale og Selena Gomez
Þessar eru ekki aðeins líkar í útliti heldur eru þær líka báðar leikkonur og söngkonur. Lucy er þó þekktust fyrri leik sinn í Pretty Little Liars og Selena er þekktust í dag fyrir tónlistina sína þó að fyrri sumum verði hún alltaf Disney stjarna.
En Lucy og Selena þykja samt sem áður það líkar að Lucy lenti í árás, sem var sem betur fer ekki alvarleg, frá aðdáanda Justin Bieber sem reyndi að ræna af henni símanum. Viðkomandi aðdáandi vildi nefnilega hringja í Justin Bieber sem var þáverandi kærasti Selenu Gomez.
Lucy hefur einnig tweet-að um það þegar kona spurði hana: “Selena, má ég taka mynd af þér” og hún hafi líklega gert út af við drauma hennar og dætra hennar þegar hún sagði þeim að hún væri ekki Selena.
Isla Fisher og Amy Adams
Ég ruglaði þessum einu sinni alltaf saman. Það er ekki endilega það að þær séu svo líkar þær minna bara á hvora aðra.
Þær eru á svipuðum aldri (Amy er tveimur árum eldri en Isla), eiga báðar dætur á sama aldri, sem voru meira að segja á tímabili í sama dansskólanum og í sama tíma og þær voru lengi vel oft bara í eftirtektarverðum aukahlutverkum. Svo hjálpar auðvitað ekki að þær eru báðar rauðhærðar, með föla húð og eins og flestar Hollywood leikkonur eru þær svipaðar í vextinum.
Isla hefur gantast með samlíkinguna og sagði meðal annars þegar “Confessions of a Shopaholic” kom út: “Ef myndin gengur vel var Isla Fisher í aðalhlutverki, ef ekki var það Amy Adams”.
Leikkonurnar tvær eru góðar vinkonur og hafa tekið samanburðinum vel eða eins og Amy hefur sagt: “Ég gæti auðveldlega verið borið saman við einhvern mun verri”.
Andrew Garfield og Andy Samberg
Þessir tveir eru ekki beint eins og þeir hafi verið aðskildir við fæðingu en það hefur samt verið ruglast á þeim.
Þegar Andy var í brúðkaupsferðinni sinni tóku þau tengiflug í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á leið sinni til Maldív-eyja og þegar þau lentu var tekið á móti þeim með pompi og prakt. Andy vissi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið og hélt að hann hefði bara aldrei áður frétt af gríðarlegum vinsældum Saturday Night Live eða Lonely Island þar í landi.
Þegar kominn var tími til að halda förinn áfram uppgötvaði hann þó hvernig var í pottinn búið þegar einn starfsmaðurinn á flugvellinum spurði hann hvort einhver áform væru um að gera aðra Spiderman mynd.
Ian Somerhalder og Chace Crawford
Maður hefði haldið að einn Ian Somerhalder hefði verið of mikið fyrir mannkynið að höndla með þessi stingandi bláu augu, sexý skeggrótina, þykku augabrúnirnar og “bad-boy-look-ið”.
Svo er hann alltaf að taka þátt í einhverju hjálparstarfi, oft fyrir dýr og á tvö gæludýr sjálfur, hund og kött sem hann segir að séu partur af fjölskyldunni og kötturinn hans Moke pósaði meira að segja með honum fyrir “The Sexiest Man Alive” myndatökuna fyrir People í fyrra.
Anyhow…ef þíð voruð ekki að taka eftir því þá finnst mér Ian mjög heillandi og ég kann því vel að meta að einhverjum snillingi hafi dottið í hug að ýta á copy paste sjö árum eftir fæðingu hans og þar með varð Chace Crawford til.
Við getum alveg verið pirruð vegna þess að afritið var ekki sent til Íslands en við skulum bara þakka fyrir að afritið hafi verið gert í staðin!
Ellen Degeneres og Niall Horan
Þessi tvö grinast sjálf helling með hvað þau séu lík þó ekki sé vitað til þess ennþá að ruglast hafi verið á þeim.
Ellen sjálf tweet-aði þessi skilaboð hér að ofan til vinstri til Niall í janúar í fyrra, þar sem hún gantast með að senda öll listaverkin sem hún fær send af sjálfri sér til annars frægs fólks sem er líkt henni og varar þar með Niall við að hann gæti farið að fá eitthvað af þessum meistaraverkum.
Niall sjálfur gerir svo reglulega grín af því hvað þau séu lík en myndin til hægri hér að ofan er skjáskot af kreditlistanum úr This Is Us þar sem Niall stillir sér upp sérstaklega til að líkjast Ellen.
Courtney Love og Lena Dunham
Þetta er vissulega nokkuð mikið gömul mynd af Courtney Love, hún er tekin árið 1981, en það er samt mjög fyndið hvað þær “stöllur” eru líkar.
Courtney Love er langan veg frá því að vera uppáhald allra en það gæti samt verið að Lena yrði ánægð með samanburðinn þar sem hún tweet-aði þessu um söngkonuna umdeildu í fyrra:
“I love bad bitches that’s my fuckin problem (examples: Cleopatra, Courtney Love, Natasha from Rocky & Bullwinkle. Lizzie Borden? Too bad?)”
Ég sé hana Hönnuh Horvath líka alveg fyrir mér í sama dressi og Courtney Love er í á þessarri mynd hér til hliðar, bara á einhverju hressu miðvikudagskvöldi þar sem hún er í enn einni tilvistarkreppunni.
Chelsea Handler og Elizabeth Banks
Enn og aftur skil ég ekki alveg hvernig er hægt að ruglast á þessum dömum og ef maður myndi ruglast þá hlyti maður að fatta ruglinginn þegar maður heyrir þær tala þar sem Chelsea er með mjög einkennandi og ráma rödd.
En Elizabeth hefur samt sem áður sagt frá því að aðdáandi hafi eitt sinn komið upp að henni á fulgvelli til að hrósa henni fyrir bókina hennar “My Horizontal Life” sem er bók sem Chelsea Handler skrifaði. Hún tekur svipað í þetta eins og Daniel Radcliffe hér að ofan og þar sem hún vill ekki eyðileggja upplifunina fyrir þeim sem halda að þeir séu að hitta Chelsea Handler leyfir hún þeim bara að halda það.
Chelsea Handler hefur svo sjálf lent í því að sjálfur Bill O’Reilly hélt að hún væri Elizabeth þegar þau voru á árlegum kvöldverði fyrir fjölmiðla í Hvíta Húsinu.
[youtube]http://youtu.be/XGqSn5Cnw74[/youtube]
Dylan McDermot og Dermot Mulroney
Þeir eru ekkert líkir en það er bara engin leið að vita hvort er hvor.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.