Með rísandi sól kemst maður ekki hjá því að finna hjá sér löngunina til að hlusta á eitthvað hresst og leggja þunglyndislögin í bleyti. Einn er sá sem fær mig alltaf til að hrista á mér afturendann (sem ekki veitir af í ljósi þess að hann er enn í hátíðarstærð), en það er “Sylvester”.
Eins og hann sagði sjálfur þá hófst líf hans þegar hann flutti til San Francisco eftir að hafa flutt að heiman aðeins 16 ára gamall. Á þeim tíma var borgin mikill suðupottur fyrir tónlist, alls kyns menningu og athvarf fyrir þá sem skilgreindu sig samkynhneigða.
„Sylvester“ hóf feril sinn sem dragdrottning á 6.áratugnum. Hann var með sérstaka og feykisterka rödd en söng aðallega í falsettu sem einkenndi hans stíl. Hann gekk til liðs við sviðslista hópinn “The Cockettes” í stuttan tíma en þau voru psychadelic dragdrottinga hópur og hann starfaði með þeim við góðan orðstír.
Eftir að hafa komið fram með hinum ýmsu hljómsveitum við misjafnar undirtektir var það ekki fyrr en „Sylvester„ kynntist Patrik Cowley sem hjólin fóru að snúast. Cowley, sem þá var vel þekktur fyrir sitt synta popp, hóf að semja fyrir hann og ýtti honum út í djúpulaug dans-syntapoppsins.
Útkoman úr því voru tvö gríðar vinsæl lög og þeir sem stunduðu Hollywood hérna í den ættu að þekkja þau vel: ” You make me feel (Mighty Reel)” og Dance (Disco heat), gerðu allt gjörsamlega vitlaust og góð ástæða til.
Með bakraddir, sem ekki voru af verri endanum og kölluðu sig Two tons O’fun (sem seinna meir urðu Weather girls), komu þau fram víðsvegar um heiminn og meðal annars í stórmyndinni “The Rose” sem Bette Midler átti stórleik í.
Verandi dragdrotting þá kom „Sylvester“ alltaf fram í glitrandi og íburðamiklum kvenmanns fötum og syngjandi falsettu, sem gerði það að verkum að það voru ekki allir sem kveiktu fyrst á perunni að hér væri karlmaður á ferð. Árið 82 framreiddi hann annan ódauðlegan slagara “Do you wanna funk” sem enn þann dag í dag ómar á diskótekunum. En eins og svo margir aðrir listamenn kvaddi hann þennan heim þegar frægðarsól hans skein sem skærast árið 1988, aðeins 41 árs, eftir að hafa háð erfiða baráttu við AIDS.
Það sem hann skildi eftir var tímalaus snilld og gargandi stuð sem ungir sem aldnir geta verið sammála um eftir fyrstu hlustun.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=j0Vh-a2l6SY[/youtube]
…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=oG2ixYJ79iE[/youtube]
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.