Föstudagskjóllinn 9. kafli: Föst í kjólnum, flækt í rennulás?

Föstudagskjóllinn í dag er næstum því alveg glænýr. Ég keypti hann fyrir mánuði og ekki af neinni ástæðu annarri en að mig langaði í hann. Það er ekki verri ástæða en hver önnur.

Þetta er auðvitað Melónukjóll (Smashed Lemon) og er þess vegna eins og svo margir úr þeirri smiðju alveg ótrúlega kósý og þægilegur. Mér fannst þessi bláu blóm svo falleg að ég varð að eignast hann. Svo er hann bara búinn að bíða eftir að fá að komast að sem föstudagskjóll.

Bókaormur Pjattsins, Anna Kristín Halldórsdóttir, strengdi þess heit um að fara í nýjan kjól á hverjum einasta föstudegi í 15 vikur. Þetta er kjóll nr 9. #föstudagskjóllinn

Spegill, spegill herm þú mér

Ég mátaði hann nú ekkert fyrr en ég kom heim en yfirleitt geri ég það nú, að máta meina ég. Mér finnst það samt alveg ótrúlega leiðinlegt. Sök sér ef hægt er að rolast beint í klefann, máta, snúa sér einn hring og ákveða sig.  En stundum er ekki spegill inn í mátunarklefunum. Hvað í fjandanum er það? Hvaða fífl hannar mátunarklefa og sleppir speglinum? Þetta krefst þess að maður fari fram og spegli sig fyrir framan klefann, í augnsýn annarra. Ég þoli það ekki. Það er sök sér ef ég er með einhverri vinkonu en ég versla yfirleitt ein þannig að það er yfirleitt ekki raunin.

Það er samt eitt sem er verra að mínu mati heldur en að fara fram og spegla sig og það er þegar afgreiðslustúlkan er svo yfirmáta hjálpsöm að hún er búin að rífa tjaldið frá til að sjá hvort þetta passi og maður stendur bara á hallærislegu undirfötunum með hliðarspikið í allar áttir. Ég vil versla og máta í friði og spegla mig í klefanum án þess að aðrir séu að horfa á mig á meðan. Þetta er einhver bæling, ég viðurkenni það en við eigum flest einhverja svona bælingu.

Föst í kjólnum

Talandi um mátanir. Hver hefur ekki lent í því að annað hvort festast í flík eða hálffestast? Það er hrikaleg tilfinning, ég hef nokkrum sinnum verið komin á þá skoðun að ég neyðist til að kaupa helvítis flíkina sem ég er að máta af því ég er föst í henni.

Hef hingað til sloppið en spáið í því að tölta fram í kjóldruslunni og segja, nei ég þarf ekki poka ég ætla bara að vera í honum, eldrauð í framan af áreynslu og kófsveitt. Það er þá ef maður er ekki fastur í einhverri annarlegri stellingu, eins og með handleggina hálfkreppta fram fyrir sig eða eitthvað. Ég fæ hroll við tilhugsunina.

Hef lent í því að vera allt undir hálftíma í klefanum að reyna að losna úr flíkinni.

Þetta eru yfirleitt kjólar eða lokaðar skyrtur sem þarf að smeygja sér í. Allt í einu stendur maður hálfskakkur, kominn í hálfa flík og kemst hvorki aftur á bak eða áfram. Þegar svona gerist þá get ég svarið að maður heyrir hvernig efnið rifnar (þó það gerist ekki) og maður breytist í fimleikastjörnu við að reyna að snúa sér á alla kanta til að ná að renna úr flíkinni. Svitinn byrjar að renna og allt í einu er orðið yfirgengilega heitt í mátunarklefanum. Ohhhh tilhugsunin er  nóg til að maður fælist frá verslunum í smá tíma en bara í smá tíma.

Rennulásar og vinnufélagar

Talandi um kjól dagsins þá er hann úr svona ofurþægilegu bolaefni og tvöfaldur yfir brjóststykkið. Enginn rennilás á bakinu. Það versta sem einhleyp kona getur lent í (ok kannski ekki það versta en nógu slæmt) er að lenda á kjól og geta ekki rennt upp. Sumir kjólar eru þannig að það er ekki séns að renna upp sjálfur. Hvað gera konur þá? Sleppa kjólnum? Nei. Fara í honum í vinnuna og biðja velviljaða vinnufélaga að hjálpa sér? Já það hefur gerst. Þá kemur hitt vandamálið, ef það er erfitt að renna upp, hvernig er þá að renna niður þegar heim er komið? Ekki er hægt að biðja vinnufélaga að renna niður áður en maður fer heim, það væri dálítið skrítið. Meira segja fyrir mig. Ég hef þannig lent í því að vera ótrúlega lengi að komast úr kjól sem er með svona rennilás. Svo lengi að nú stíla ég á að vera ekki í svona nema að barnið sé heima þannig að hún geti hjálpað.

Fallegur haustdagur, í fallegum haustkjól og hvað um það þó smá hliðarspik slæðist með? Ok smá erfitt, viðurkenni það en ég er búin að fá skammir fyrir að vera of hrædd við að sýna útlitið eins og það er. Svo hér kemur það, eigið góðan föstudag kæru vinir!

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Föstudagskjóllinn 9. kafli: Föst í kjólnum, flækt í rennulás?