Föstudagskjóllinn 8. Kafli: Náttkjóll var það heillin!

Föstudagskjólinn í dag er óvenjulegur. Í dag er nefnilega almennt sinnuleysi og lasleiki að hrjá mig og ég ekki á fótum. Ég tók þá ákvörðun að vera bara í náttkjólnum. Er ekki í stuði til að vappa um íbúðina í fínum kjól.

Stórir eða litlir?

Það er þetta með náttkjóla, ég á fullt af þeim. Í öllum stærðum. Ég hef nefnilega verið í öllum stærðum. Einu sinni svaf ég í bolum en svo kom sú stund að ég gat ekki meira svona bola dæmi. Þetta er svo ljótt og óklæðilegt. Já, já þið megið alveg vera ósammála mér, en ég vil vera fín líka þegar ég sef.

Í gamla daga, þegar ég var ung að árum, þá stundaði ég það að kaupa nátt- og undirkjóla í búðum sem seldu notuð föt og gekk svo í þessum flíkum á daginn, sallaánægð með mig.

Göngukjóllinn sem ég þarf kannski að hekla?

Myndi ekki gera það í dag en hins vegar ef ég væri aftur orðin ung þá myndi ég eflaust gera það. Í dag vil ég helst ganga í kjólum sem eru ætlaðir til göngu. Núna er ég t.d. að skoða kjóla eða pils sem ég get notað í gönguferðir í vetur. Hugsa að ég verði að hekla svoleiðis fyrirbæri, finnst nefnilega þeir kjólar sem eru til ekki vera alveg minn stíll. Hugsa að það verði samt bara pils, pils er ekki kjóll en það hefur samt suma eiginleika kjóls. Þetta pils verður að vera hlýtt og má ekki vera of sítt en það þarf samt að sjást að þetta er pils en ekki einhver dula. Allar hugmyndir eru vel þegnar!

Ekki í kvennahlaupsbolinn!

Aftur að náttkjólnum. Þeir eru nefnilega misgóðir, alveg eins og það eru ekki allir kjólar þægilegir. Síddin skiptir ekki aðalmáli og þó. Það er frekar leiðinlegt (og alls ekki smart) að vakna upp með síða náttkjólinn vafinn utan um mittið eða eitthvað. Þurfa að standa upp og laga hann allan. Liturinn skiptir heldur ekki máli en svo er það efnið. Ég vil ekki svona þykka bómullarnáttkjóla. Ó nei, þá gæti ég alveg eins farið í gamla kvennahlaupsbolinn. Ég vil svona silki sem sveiflast um mig og gerir mig sexý og flotta.

Ókey þetta er kannski óskhyggja, þannig að ég læt bara satínið duga enda er það ódýrara og ég verð aldrei neitt mjög sexy í þessu hvort eð er.

Náttkjólar á ferð og flugi

Það er samt dálítið mál ef ég er að ferðast og þarf að sofa í sama herbergi og einhver vinkona eða vinnufélagi. Hvað gera bændur þá?

Ekki hægt að vera í über sexy náttkjól með þeim, þær gætu sem best haldið að ég væri að reyna við þær (djók). Þetta krefst samt smá pælinga. Nógu þægilegur og samt innan skynsemismarka varðandi hversu fleginn og allt það. Ekki viss um að vinkonurnar (að ég tali nú ekki um vinnufélagana) hafi nokkurn áhuga á að horfa á brjóstin á mér í hvert skipti sem þær líta í áttina til mín. Þess vegna er þessi fínn sem ég er í núna. Hann er innan allra marka. Ekki ljótur, þægilegur og hylur svona það helsta.

Nú er best að ég fari aftur í rúmið í gamla, góða náttkjólnum mínum og haldi áfram að reyna að ná úr mér þessari kvefpest.

Bingó!

Bingóvöðvarnir

PS. Þið skuluð ekki halda að það sé gaman að taka myndir af sér í náttkjól. Brjóstin niðri í gólfi og bingóvöðvarnir í sínu besta formi.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Föstudagskjóllinn 8. Kafli: Náttkjóll var það heillin!