Föstudagskjóllinn 7. Kafli: Sokkabuxur í klofinu

Nú er föstudagskjólinn á faraldsfæti. Brá sér út fyrir landsteinana í haustfrí. Þá þarf að velja kjól sem er góður í ferðalög.

Mér finnst nefnilega ekki gott að þvælast á flugvöllum kjóllaus (Jú, auðvitað væri ég í einhverjum fötum en mér finnst kjóllinn betri). Hann má þó ekki vera of síður því þá þvælist hann fyrir þegar verið er að skjóta töskunum í allar áttir. Finnst líka betra að ferðast í gallabuxum en ekki sokkabuxum.

Krumpukjóll

Þessi kjóll er fínn ferðakjóll og ég er búin að sannreyna það. Hann var keyptur í Lindex síðasta sumar og ég féll fyrir þessum útsaumuðu blómum. Hann krumpast dálítið, sem pirraði mig þangað til ég ákvað að hann hlyti að eiga að vera þannig. Annars væri hann er ekki úr krumpuefni. Góð röksemdarfærsla ekki satt?

Kjóll og buxur?

Ég er alltaf í gallabuxum við þennan kjól enda var hann keyptur til þess og mér finnst hann flottastur þannig. Sumir kjólar eru nefnilega buxnakjólar og sumir eru leggingskjólar og svo eru það þeir sem passa við sokkabuxur. Ég er mjög sérvitur þegar kemur að leggings og sokkabuxum. Mér finnst ekki fallegt að sjá bil á milli leggings og sokka og vera í kjól við. Finnst það eins og þá sé búið að aflima mig. Svona getur sérviskan verið. Hinsvegar hef ég átt í ákveðnu hatursástarsambandi við sokkabuxur.

Sokkabuxur í klofinu

Fallegar sokkabuxur og sérviskulegar sokkabuxur er minn veikleiki en ég kann ekki að kaupa rétta stærð. Þvílíkt sem það getur pirrað mig. Þær mega ekki vera of langar og ekki of stuttar. Þessar löngu hlykkjast niður leggina þannig að það er eins og maður sé að týna buxunum og þessar stuttu… hvar á ég að byrja? Þessar stuttu, þær síga í klofinu og eftir smá stund fara þær að síga í hliðunum líka þannig að í hverju skrefi er eins og þær séu að reyna að stinga af. Það er ekki góð skemmtun. Vera í flottum kjól og sokkabuxum þar sem klofið er komið hálfa leið niður að hnjám og teygjan í mittinu (munið, ég er ekki með mitti) er komin niður fyrir rassskoru.

Stundum er maður í þannig aðstæðum að ekki er hægt að laga þetta og maður verður að labba um í sokkabuxum sem eru komnar hálfa leið niður að ökklum og maður er allan tímann að reyna að passa að enginn taki eftir því. Þá eru nú löngu buxurnar skárri.

Ekki er betra ef þarf að setjast niður og standa upp nokkrum sinnum og vera í þannig sokkabuxum. Maður finnur í hvert skipti sem maður stendur upp að þær hafa sigið aðeins lengra og mann fer að kvíða því að þurfa að standa upp og yfirgefa svæðið vitandi það að buxurnar eru komnar til fjandans. eru farnar að hlykkjast um ökklana, eða svona næstum því.

Síðan er það til í dæminu að kaupa þessar fínu buxur sem passa nákvæmlega eins og þær eiga að gera. En svo þarf að þvo þær og allt í einu er þær komnar í hina deildina. Hryllilega sem þetta getur verið pirrandi. Liggur við að þetta sé einnota drasl.

Flottar leggings eða flottar sokkabuxur

Leggings hinsvegar passa ekki alltaf við kjóla. Ef kjóllinn er mjög fínn þá hef ég ekki gaman að því að vera í svoleiðis við. Þá finnst mér ég verða að vera í sokkabuxum. Það er hinsvegar meira úrval af skrautlegum leggings heldur en skrautlegum sokkabuxum. Það er auðvitað hægt að kaupa ótrúlega skrautlegar og flottar sokkabuxur sem kosta alveg hvítuna úr augunum. Ég fer bara ekki að kaupa sokkabuxur sem kosta meira en kjóllinn sem ég er í. Það er bara ekki í boði.

Í dag er það hins vegar gallabuxur og kjóll í fallegum haustgarði í Osló og engar áhyggjur  af sokkabuxum á röngum stað!

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Föstudagskjóllinn 7. Kafli: Sokkabuxur í klofinu