Föstudagskjóllinn 6. kafli: Bleiki dagurinn minn er blár

Föstudagskjóllinn 6. kafli: Bleiki dagurinn minn er blár

Jíbbí jeij. Það er bleiki dagurinn í dag. Nei bíddu, það er kannski ekki svo gott, því ég á engan bleikan kjól. Já, þú last rétt.

Ég bleika, kjóla og blúndu Anna á engan bleikan kjól! Ég ákvað síðasta bleika dag að þetta kæmi ekki fyrir aftur en árið er bara svo fljótt að líða. Ég gleymdi mér og nú á ég ekki pening fyrir nýjum kjól (sem ég myndi kannski bara nota einu sinni á ári). Nú eru eru sko engin góð ráð í boði, hvorki dýr eða ódýr. Ég er búin að toga í alla svörtu og mislitu kjólana  mína en það er enginn einu sinni bleikleitur.  Hvað gerir konan þá?

 

Hugsa í lausnum!

Þá svissa ég bara um og hef bleika og bláa daginn. Ég er kona sem hugsar í lausnum. Það er sko á hreinu. Þetta er vissulega blár kjóll en hann er með svo mörgum bleikum flamingófuglum að hann getur næstum því svindlað sér inn sem bleikur.

Þennan fína kjól keypti ég af honum Ali frænda mínum Express. Við erum góðir vinir. Hef að vísu aldrei keypt af honum kjól og hugsa að ég komi ekki til með að kaupa marga en það var allt í lagi að kaupa einn til að prufa.  Alls ekki dýr, 20 dollarar það er gjafverð fyrir kjól.

Slaufunni sleppt

Hann er dálítið síður, fer niður fyrir þessa hnésídd sem ég vil vera í. Myndi bjargast ef ég færi í fína tjullpilsið sem ég keypti í Camden hérna um árið.

Nei, það gengur samt eiginlega ekki þar sem ég ætla að vera á virðulegri ráðstefnu um kennsluþróunarmál og það væri kannski aðeins „overkill“. Fer bara í honum þó hann sé síður.

Svo er á honum eitthvað svona slaufubelti en ég sleppi því. Ég hef nefnilega ekki mitti. Það truflar mig venjulega ekki. Ég er ekkert að vingast um dagsdaglega með stórar slaufur í mittinu og ég held ég leyfi þessum degi bara líða án þess líka.

Ég hef gaman af svona skrautlegum kjólum en á ekki mjög marga þannig. Þarf að bæta úr því. Maður fer nefnilega í svo gott skap í svona glæfralega, skrautlegum kjól og samferðamennirnir gleðjast líka. Kannski eru þeir bara að hlæja að mér svona þegar ég sé ekki til og halda að ég sé eitthvað skrítin. En er það þá ekki bara allt í lagi?

Er flái i kjólnum?

Þessi er nú ekki eins vel saumaður og Melónukjólarnir það verður að viðurkennast. Ég þarf aðeins að passa upp á að hálsmálið, að það renni sér ekki upp úr kjólnum og fyrir mitt fína andlit svo enginn heyri hvað ég segi.

Ókei, kannski ekki alveg svo slæmt en það er samt eitthvað aðeins skrítið og svo er smá flái í því. Já, svona er ég flink og slæ um mig með saumakonuorðum.

Ég ætlaði nefnilega einu sinni að verða fræg tískukona og saumaði mér föt eins og enginn væri morgundagurinn. En svo missti ég áhugann og hef ekki saumað mér neitt í mörg ár. En ég kaupi samt efni. Maður á nefnilega aldrei nóg af efnum skal ég segja ykkur. Kannski fer ég í eitthvað stuð og sauma eitthvað skemmtilegt. En það verður ekki þessi föstudagur. Þetta er bleiki föstudagurinn hans Ali frænda (sem er að vísu blár).

Ps. Ég má til með að benda ykkur á flottu íþróttaskóna mína með ljósunum og glimmerinu. Það er ekki hægt að nota þá í íþróttum. Glimmerið myndi dreifast um allt og það væri örugglega ekki vinsælt.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest