Kjóll dagsins í dag er frábær enda tileinkaður nýkomnum áhuga mínum á brjóstaskorum. Já þið lásuð rétt. Þessi kjóll er keyptur í Kjólar og Konfekt, eins og svo margir af kjólum mínum síðustu tvö árin en ég fór að elska þessa búð þegar ég fattaði að hún er ekki bara fyrir mjónur, heldur líka konur eins og mig. Ómjónur.
Síðir kjólar fyrir stuttar konur
Mér fannst hann aðeins of síður og er því búin að stytta hann aðeins en mér er afskaplega illa við að kjólar nái niður fyrir hné.
Kjólar niður fyrir hné gera litlar, feitar konur eins og mig nefnilega eitthvað svo kauðslegar. Þannig að ég nota gömlu góðu saumavélina mína og stytti alveg hiklaust.
Mér finnst þessi kjóll æði en hann er um leið dálítið „gömlukonulegur”. Að vísu eru gamlar konur ekkert að flagga skorunni, eða jú kannski eru þær það. Ég ætla alla vega að gera það!
Brjóstaskorufárið
Ég ákvað nefnilega í haust, þegar upphlaupið varð með dómarann og brjóstaskoruna að nú væri komið nóg. Ég er orðin miðaldra og ég hef alla ævi verið að fela þessa fjandans brjóstaskoru og reyna að smætta á mér brjóstin og trúið mér það er ekki auðvelt mál því nóg er af þeim. Nú er því hafið nýtt tímabil í lífi mínu.
Mér finnst þetta ekki auðvelt. Alla ævi hef ég passað að vingsa ekki neinu og vera ekki með ósiðlega skoru. Þess vegna er það þannig að ég er alltaf aðeins að toga í kjólinn svo hann fari aðeins hærra, sýni ekki alveg eins mikið. Ég þarf að berja á puttana á mér oft á dag. Meira segja þegar ég sit ein á skrifstofunni minni fyrir framan tölvuna, þá reyni ég að laga svo það sjáist ekki of mikið. Nú er ég sem sagt hætt þessu. Nú flagga ég því sem er þarna og mér er alveg sama þó ég móðgi eða trufli einhverja. Það er búið að taka mig heilan mannsaldur (minn) að komast á þennan stað.
Melónukjólar mínir uppáhalds
Þessi kjóll er frá merkinu Smashed Melon en ég á nokkra (marga) kjóla frá þeim, því einhvern veginn þá eru þeir alveg á sömu línu og ég. Mátulega passlega öðru vísi og allskonar. Ég get ekki átt bara svona kjóla eða svona kjóla. Það fer jú eftir skapinu hverju sinni í hverju ég er.
Finnst þér ég feit í þessu?
Alla ævina hef ég líka spáð í því hvort ég er feit í hinu eða þessu. Ég eyddi miklum tíma í svona pælingar þegar ég var 30 kg léttari en ég er í dag (það eru mörg ár síðan) en tók þá ákvörðun um áramótin að ég væri hætt þessu rugli. Ef mér finnst flíkin flott þá er mér fjandans sama þó einhverjum finnist ég vera feit (og ef það sést í brjóstaskoruna þá er það bara ekkert mál, ég reyni bara að hætta að toga kjólinn eða bolinn upp fyrir).
Verð samt alveg að viðurkenna að mér bregður enn dálítið ef ég sést á mynd eða labba fram hjá spegli í flík sem er ekki mjög „grennandi”. Það er nefnilega erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Þessi kjóll er sem sagt bæði fitandi og það sést í hættulega staði en menn verða bara að lifa með því.
Góðan föstudag hele grubban!
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.